Innlent

Rúmur helmingur vill að Ólafur Ragnar bjóði sig aftur fram

Höskuldur Kári Schram skrifar
Rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar vill að Ólafur Ragnar Grímsson gefi kost á sér í forsetakosningum á næsta ári. Framboð Ólafs nýtur mikils stuðnings meðal framsóknarmanna en mun minni meðal kjósenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Þetta kemur fram í könnun fréttastofu Stöðvar tvö og fréttablaðsins sem var gerð 23 og 24 febrúar. Hringt var í átta hundruð manns sem voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var, "finnst þér að Ólafur Ragnar Grímsson ætti að gefa kost á sér fyrir fimmta kjörtímabilið sem forseti Íslands þegar kosið verður á næsta ári".

Alls tóku áttatíu og þrjú komma níu prósent afstöðu til spurningarinnar.

Fylgið á milli flokksmanna skiptist með þessum hætti.
Af þeim sem tóku afstöðu vilja rétt rúmlega fimmtíu prósent að Ólafur gefi kost á sér á ný en fjörtíu og níu komma átta vilja það ekki.

Þegar horft er til polítsikra skoðana kemur í ljós að framboð Ólafs nýtur mikils stuðnings meðal kjósenda framsóknarflokksins. Rúmlega sjötíu og þrjú prósent vilja að Ólafur gefi kost á sér á næsta ári. Meirihluti kjósenda sjálfstæðisflokks styður líka framboð Ólafs eða tæplega fimmtíu og fjögur prósent.

Þingmenn sjálfstæðisflokks og framsóknar kusu með þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og skýrir það kannski að einhverju leyti vinsældir forsetans meðal kjósenda þessara flokka.

Kjósendur Hreyfingarinnar skiptast tvær jafnstórar fylkingar en verulega dregur úr stuðningi við framboð Ólafs þegar kemur að kjósendum stjórnarflokkanna. Tæplega þrjátíu og níu prósent samfylkingarmanna vilja að Ólafur bjóði sig fram aftur en aðeins um tuttugu og sjö prósent kjósenda vinstri grænna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.