Enski boltinn

Zola: Held að McCarthy og Cole muni ná vel saman

Ómar Þorgeirsson skrifar
Benni McCarthy í leik með Blackburn.
Benni McCarthy í leik með Blackburn. Nordic photos/Getty

Knattspyrnustjórinn Gianfranco Zola hjá West Ham er sannfærður um að framherjinn Benni McCarthy eigi eftir að leggja sitt að mörkum til þess að hjálpa Lundúnafélaginu í harðri fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Fastlega er búist við því að gengið verði frá félagsskiptum hins 32 ára gamla framherja frá Blackburn til West Ham á morgun, lokadegi félagsskiptagluggans, en félögin tvö hafa þegar náð samkomulagi um kaupverð og McCarthy hefur samið við West Ham og gengist undir læknisskoðun en aðeins er beðið eftir að atvinnuleyfi hans verði endurnýjað.

Zola bindur miklar vonir við að McCarthy og Carlton Cole, markahæsti leikmaður West Ham til þessa á tímabilinu, eigi eftir að ná vel saman.

„Við erum með mjög ungt lið og tilkoma Benni á eftir að hjálpa okkur mikið því hann býr yfir mikilli leikreynslu fyrir utan það að vera mikill markaskorari. Tilkoma Benni á án nokkurs vafa einnig eftir að taka smá pressu af Carlton Cole og ég hlakka mikið til þess að sjá hvernig þeir eiga eftir að ná saman því ég er sannfærður um að þeir eigi eftir að gera góða hluti fyrir okkur," segir Zola í viðtali við Sky Sports fréttastofuna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×