Lífið

Friðrik Dór í rokkið á ný

Popparinn Friðrik Dór ætlar að spila með gömlu félögunum úr hljómsveitinni Fendrix í kvöld á A. Hansen bar í Hafnarfirði. Fréttablaðið/Valli
Popparinn Friðrik Dór ætlar að spila með gömlu félögunum úr hljómsveitinni Fendrix í kvöld á A. Hansen bar í Hafnarfirði. Fréttablaðið/Valli
„Fendrix er einhver magnaðasta unglingahljómsveit sem komið hefur upp í hafnfirsku tónlistarlífi," segir söngvarinn Friðrik Dór Jónsson.

Friðrik og félagar hans stofnuðu rokkhljómsveitina Fendrix þegar þeir voru í 8. bekk í Setbergsskóla í Hafnarfirði, en bandið lifði ekki lengi og sneru meðlimir sér fljótlega að öðru. Í kvöld ætla liðsmenn Fendrix að halda „comeback" tónleika á A. Hansen bar í Hafnarfirði.

„Fendrix var rosalegt band. Við kepptum í Músíktilraunum árið 2003 og komumst á úrslitakvöldið en unnum ekki," segir Friðrik Dór, sem barði trommurnar í bandinu.

Hann segir að það hafi verið brandari lengi vel að koma með „comeback" og nú ætli þeir að láta verða af því. „Dagskráin verður örugglega ekki löng. Við vorum með einhver þrjú, fjögur lög á sínum tíma en ætlum vonandi að frumflytja nýtt lag sem verður örugglega það þyngsta í sögu Fendrix," segir Friðrik, léttur í bragði.

Hann sér ekki eftir því að hafa sagt skilið við Fendrix á sínum tíma. „Það var ýmislegt annað sem heillaði. Ég fór líka í fýlu eftir Músíktilraunirnar en ég er mjög tapsár maður," segir Friðrik, sem hefur að mestu sagt skilið við rokkið.

Páll Fannar Pálsson, liðsmaður Fendrix, segist ekkert vera fúll yfir því að Friðrik Dór hafi hafið sólóferil. „Hann Frikki er flottastur og hefur alltaf verið flottastur, við erum bara ánægðir með hann."- ka


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.