Lífið

The Game hættir við vegna flughræðslu

The Game neitaði að fljúga til Íslands eftir að flugvél sem hann var í lenti harkalega fyrir skömmu.
The Game neitaði að fljúga til Íslands eftir að flugvél sem hann var í lenti harkalega fyrir skömmu.

„The Game neitaði að taka á loft í þessum veðuraðstæðum,“ segir Arnviður Snorrason, best þekktur sem Addi Exos. Til stóð að Addi myndi halda tónleika með bandaríska rapparanum The Game á Broadway í kvöld. Tónleikunum hefur verið aflýst, þar sem rapparinn var gripinn flughræðslu í síðustu viku.

„Í síðustu viku lenti flugvélin hans svo illa að hann tók þá ákvörðun að hætta við öll flug – meðal annars til Íslands. Hann keyrði til allra tónleikastaða á meginlandi Evrópu,“ segir Addi. „Síðasta miðvikudag komst hann til dæmis ekki á tónleikana sína í Póllandi vegna ófærðar.“

En er hann ekki að brjóta samning við þig? „Reyndar.“

Það hlýtur að hljótast af þessu fjárhagslegt tjón – er einhver möguleiki á að fá bætur? „Ég nenni því ekki. Þeir koma bara seinna.“

Þú hefur ákveðið að halda góðu sambandi við hans menn í staðinn fyrir að fara dómstólaleiðina? „Já. Ég nenni ekki einhverju svoleiðis væli, hef ekki tíma í það.“

Tapaðirðu miklu? „Aðallega tímanum. Annars var þetta bara skemmtilegt. Það þarf meira til að koma manni úr jafnvægi en þetta.“

Þú ert sem sagt bara brattur? „Já, já, jólin á leiðinni og svona.“

Þeir sem voru búnir að kaupa miða geta fengið endurgreitt í Mohawks í Kringlunni á mánudaginn. Addi lofar þeim að margt sé fram undan og að stór nöfn í hiphop-heiminum séu á leiðinni til landsins. „Stærri nöfn heldur en The Game,“ fullyrðir Addi. „Mér þykir leiðinlegast að valda aðdáendum hans vonbrigðum. Þetta er því miður ekki í okkar höndum.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.