Innlent

Hafið hundana í taumi - sumir eru hræddir við þá

Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar biðlar til fólks að hafa hundana í taumi.
Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar biðlar til fólks að hafa hundana í taumi. Mynd/ Úr safni
Undanfarið hefur borist talsvert af kvörtunum til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna lausagöngu hunda í borginni. Samkvæmt samþykkt um hundahald í Reykjavík er hundaeigendum skylt að hafa hunda sína í taumi víðast hvar í borgarlandinu og skapa brot á því óþægindi fyrir alla borgarbúa.

Í tilkynningu frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar segir að enginn kæri sig um að mæta lausum hundi þar sem tryggt á að vera að hundar séu í taumi. „Þá ber að hafa í huga að sumir eru hræddir við hunda og eru dæmi um að þeir forðist að vera á ákveðnum stöðum í borginni af ótta við að mæta lausum hundum þar sem hundar eiga þó að vera í taumi."

Þar segir einnig að hundaeigendur kvarta sjálfir einnig undan lausagöngu annarra hunda því hún skapar óþægindi og jafnvel hættu fyrir þá og dýrin þeirra. „Þótt langflestir hundaeigendur virði reglurnar á það því miður ekki við um alla. Heilbrigðiseftirlitið skorar því á alla hundaeigendur að virða samþykkt um hundahald í Reykjavík; koma í veg fyrir ónæði, s.s. hávaða, hirða upp eftir hunda sína, hafa þá í taumi þar sem við á og koma í veg fyrir hvers konar hættu sem stafað getur af hundahaldi. Leyfi til hundahalds í Reykjavík er háð því að eigendur fari að samþykktinni og með því getur um leið skapast sátt um hundahald í borginni."

Rétt er að minna á að lausaganga hunda er leyfð á Geirsnefi, Geldinganesi og á auðum svæðum fjarri íbúðabyggð. Taumskylda er hins vegar á öllum öðrum svæðum í borginni, meðal annars á skipulögðum göngustígum svo sem í Elliðaárdal, Fossvogsdal og við Rauðavatn






Fleiri fréttir

Sjá meira


×