Innlent

Fréttaskýring: Áminningar um skil sendar þrisvar á ári

Á annað þúsund fyrirtækja eru í vanskilum með ársreikninga. Sum þeirra eru nokkuð umsvifamikil. Fyrirtæki mega búast við sektum ef þau bregðast ekki við áminningum um skil.
Á annað þúsund fyrirtækja eru í vanskilum með ársreikninga. Sum þeirra eru nokkuð umsvifamikil. Fyrirtæki mega búast við sektum ef þau bregðast ekki við áminningum um skil. Mynd/GVA
Algengt er að fyrirtæki skili ekki ársreikningum til Ársreikningaskrár.

Helsta ástæðan er gleymska og trassaskapur, samkvæmt upplýsingum frá skránni. Mörg dæmi eru um að félög, sem jafnvel hafa töluverð umsvif, hafi ekki skilað reikningum svo árum skipti.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær hefur félagið Akurey, sem á 61 prósent í lyfjafyrirtækinu Icepharma í gegnum annað félag, aldrei skilað ársreikningi frá stofnun árið 2007.

Stjórnarformaður þess og prókúruhafi, Kristján Jóhannsson, er lektor í viðskiptafræði og situr jafnframt í stjórn Arion banka sem fulltrúi Bankasýslu ríkisins.

Kristján sagðist koma af fjöllum þegar Fréttablaðið ræddi við hann. Hann hefði einfaldlega ekki vitað af vanskilunum.

Samkvæmt upplýsingum frá Ársreikningaskrá hafa öllum þeim sem hafa vanrækt að skila ársreikningum verið sendar þrjár áminningar vegna þess fyrir árið 2007 og tvær fyrir árið 2008. Kristján ætti því að hafa fengið sendar samtals fimm áminningar um að skila reikningum fyrir árin 2007 og 2008.

Ársreikningum ber að skila í síðasta lagi í lok ágúst að loknu reikningsári. Skömmu eftir að sá frestur líður sendir Ársreikningaskrá áminningu, ítrekar hana í tvígang og sendir að lokum sektarboðun. Sé reikningi þá ekki skilað innan mánaðar leggst 250 þúsund króna sekt á félagið, og tvöföld sú upphæð fyrir ítrekuð vanskil. Þessari sektarheimild var bætt í lög um ársreikninga árið 2006.

Öðru máli gegnir um félög sem uppfylla tvö af þremur lögbundnum stærðarskilyrðum tvö ár í röð; eigi 230 milljóna eignir, hafi 460 milljóna rekstrartekjur eða fjöldi ársverka sé 50. Vanskilum fyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði er vísað til skattrannsóknarstjóra til frekari skoðunar. Ólíklegt verður þó að teljast að eignarhaldsfélagið Akurey uppfylli nema eitt þessara skilyrða.

Ef félag trassar að skila reikningum þrjú ár í röð kannar Ársreikningaskrá hvort það sýni einhver merki þess að það sé enn starfandi. Ef svo er ekki er félagið tekið af skrá í samræmi við 83. grein laga um einkahlutafélög og er þá rekið á ábyrgð eigandans.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri lýsti þeirri skoðun sinni síðasta haust í viðtali við Fréttablaðið að réttast væri að hann hefði heimild til að afskrá félög á grundvelli vanskilanna einna og hefði látið fjármálaráðuneytið vita af því. Úr því hefur ekki verið bætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×