Innlent

Bjóða ríkinu forkaupsrétt

Ross Beaty, forstjóri Magma Energy, hefur í bréfi til iðnaðarráðherra boðið ríkinu ótímabundinn forkaupsrétt á meirihluta í fyrirtækinu. Hann kallar eftir aðkomu íslenskra fjárfesta og viðræðna um leigutíma.
Ross Beaty, forstjóri Magma Energy, hefur í bréfi til iðnaðarráðherra boðið ríkinu ótímabundinn forkaupsrétt á meirihluta í fyrirtækinu. Hann kallar eftir aðkomu íslenskra fjárfesta og viðræðna um leigutíma. Mynd/GVA

Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra hefur borist formlegt erindi frá Ross Beaty, forstjóra Magma Energy, þar sem íslenska ríkinu er boðinn ótímabundinn forkaupsréttur á meirihluta í fyrirtækinu. Eins er ríkinu boðið til viðræðna um styttingu leigutíma á afnotarétti auðlinda á Reykjanesi.

„Þetta eru vissulega býsna mikil tíðindi," segir Katrín. „Ég hef alltaf viljað nálgast þetta með þessum hætti. Leysa þetta mál á jákvæðan hátt í stað þess að fara í upptöku á eignum eða þjóðnýtingu. Ef menn geta samið sig út úr þessu er það best fyrir alla."

Katrín segir að þessi leið hafi verið rædd á milli hennar og stjórnenda Magma á fyrri stigum. „En að fá formlegt boð breytir öllu og við munum væntanlega ganga í þetta núna. Ég hef lengi lýst þeim vilja mínum að lykilatriði sé að við tryggjum ríkinu forkaupsrétt."

Beaty ítrekar einnig í bréfinu vilja fyrirtækisins til að bjóða íslenskum fjárfestum að kaupa hluti í fyrirtækinu, hvort sem það eru sveitarfélög, lífeyrissjóðir eða aðrir fjárfestar.

Bréfið barst iðnaðarráðherra 18. ágúst, eða daginn eftir að Magma fullnustaði samning um kaup á 38 prósenta hlut Geysis Green Energy í HS Orku. Fyrirtækið á nú ríflega 84 prósenta hlut og hefur samkvæmt samningi nýtingarrétt á jarðhita á Reykjanesi í 65 ár. Nefnt hefur verið að sá tími verði styttur um þriðjung.

Eins og kunnugt er starfar nefnd á vegum stjórnvalda sem fer yfir kaup Magma á HS Orku. Katrín segir að skoða verði tilboð Magma í samhengi við störf rannsóknarnefndarinnar. „En það er vonandi að menn geti þekkst þetta boð um að kaupa sig inn í fyrirtækið. Það gætu verið ríkið og sveitarfélög í samvinnu við lífeyrissjóðina. Lífeyrissjóðirnir eru lykilaðilar á þessum tímapunkti ef það á að takast." Í bréfinu kemur Beaty inn á þær deilur sem hafa verið um kaup Magma á HS Orku. Engin dul er dregin á það að tilboð Magma helgast fyrst og síðast af þeim deilum. - shá

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.