Fótbolti

Frei kominn í sitt besta form - Sviss þarf sigur

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Alexander Frei.
Alexander Frei. AFP
Svisslendingar geta vel komist áfram úr riðlakeppninni í kvöld. Þeir þurfa að vinna Hondúras þó svo að jafntefli dugi ef Spánverjar tapa fyrir Chile. Chile er með sex stig en Spánn og Sviss þrjú. Sviss getur líka komist yfir Chile með sigri gegn Hondúras og að vinna Hondúras með tveimur mörkum meira en Chile tapar. Þetta eru allt getgátur og möguleikar, en Svisslendingar fara einfaldlega inn í leikinn til að vinna hann, með engu að tapa. Þeir endurheimta loksins fyrirliða sinn og sinn besta mann, Alexander Frei. Hann var ekki upp á sitt besta þegar hann lék gegn Chile en segist nú vera kominn í sitt besta stand til þessa í margar vikur. "Þetta er undir þjálfaranum komið. Ég er hérna fyrir liðið og geri það sem þarf að gera. Ég er 100% klár í slaginn og ég skil af hverju ég var tekinn af velli þar sem ég hef ekki spilað mikið undanfarið," sagði Frei sem byrjaði gegn Chile en fór af velli á 42. mínútu. Þjálfari Hondúras segist heldur ekki ætla að gefast upp, þeir geta enn komist áfram með stórum sigri ef Spánn tapar. "Við ætlum að spila upp á stoltið og muna að við eigum enn smávegis möguleika," sagði Reinaldo Rueda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×