Fótbolti

Litlaust hjá Brasilíu og Portúgal sem komust áfram - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lucio og Cristiano Ronaldo berjast um boltann í dag.
Lucio og Cristiano Ronaldo berjast um boltann í dag. Nordic Photos / Getty Images

Brasilía og Portúgal eru komin áfram í 16-liða úrslit HM í Suður-Afríku eftir steindautt markalaust jafntefli í lokaumferð G-riðils.

Í hinum leiknum vann Fílabeinsströndin 3-0 sigur á Norður-Kóreu en bæði þessi lið sitja eftir eins og allt útlit var fyrir hvort eð er.

Stórstjörnunar í liðum Brasilíu og Portúgals gáfu afar lítið af sér í leik liðanna í dag. Portúgal lagði áherslu á að verjast enda þurfti liðið eitt stig úr leiknum til að gulltryggja sætið í 16-liða úrslitunum. Sigur hefði hins vegar komið Portúgal á topp riðilsins.

Fá marktækifæri litu dagsins ljós í leiknum og einn besti leikmaður heims, Cristiano Ronaldo hjá Portúgal, fékk úr afar litlu að moða. Brasilíumenn sóttu meira og voru nærri því að skora.

Nilmar fékk besta færið er hann átti skot af stuttu færi sem Eduardo, markvörður Portúgals, varði í stöng. Luis Fabiano skallaði svo framhjá undir lok fyrri hálfleiks.

Í þeim síðari komst portúgalska liðið í ágæta skyndisókn sem lauk með því að boltinn barst fyrir markið á Raul Meireles sem var nálægt því að lauma knettinum í markið.

Sigur Fílabeinsstrandarinnar á Norður-Kóreu var sanngjarn og hefði auðveldlega getað orðið stærri. Hefði Portúgal tapað með minnsta mun í dag hefði Fílabeinsströndin þurft að skora átta sinnum gegn Norður-Kóreu. Svo mörg urðu mörkin þó ekki.

Það byrjaði þó ágætlega og Yaya Toure kom Fílabeinsströndinni yfir með marki strax á 14. mínútu með mjög snotru skoti frá vítateigslínunni. N'dri Romaric bætti öðru við aðeins sex mínútum síðar er hann skallaði inn boltann eftir að skot Didier Drogba hafnaði í slánni.

En þó svo að þeir grænklæddu hefðu sótt mun meira kom næsta mark ekki fyrr en undir lok leiksins. Varamaðurinn Salomon Kalou var þar að verki.

Brasilía mætir liðinu sem verður í öðru sæti í H-riðli í 16-liða úrslitum á mánudagskvöldið en Portúgal þarf að kljást við topplið H-riðils í sinni viðureign á þriðjudagskvöldið.

Lokaumferðin í H-riðli fer fram í kvöld. Þar mætast Chile og Spánn annars vegar og hins vegar Sviss og Hondúras.

Samantektir úr leikjunum má finna með því að smella á Brot af því besta á HM-vef Vísis, undir flipanum VefTV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×