Innlent

Rútan var nýlega skoðuð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
15 farþegar voru í rútunni, auk bílstjóra og leiðsögumanns. Mynd/ Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir.
15 farþegar voru í rútunni, auk bílstjóra og leiðsögumanns. Mynd/ Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir.
Rútubifreiðin sem valt í Reykjadal í Þingeyjarsýslu í gær var nýlega skoðuð og með öll tilskilin leyfi, segir í yfirlýsingu frá Ferðakompaníinu til fjölmiðla. Farþegar sem lentu í slysinu voru á vegum Ferðakompaníisins. Í yfirlýsingunni segir að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið atvinnuökumaður til margra ára með öll tilskilin próf og reynslu. Hvorki eigandi bifreiðarinnar né ökumaður höfðu orðið varir við neitt athugavert við véla-hjóla eða bremsubúnað bifreiðarinnar áður en umferðaróhappið átti sér stað.

Í yfirlýsingunni frá Ferðakompaníinu segir að starfsfólk fyrirtækisins harmi það hræðilega umferðarslys sem átti sér stað. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu bendi fyrstu vísbendingar til þess að um bilun í bremsubúnaði hafi verið að ræða en Rannsóknarnefnd umferðarslysa eigi eftir að fullkanna orsakir slyssins. Bertrand Jouanne, framkvæmdastjóri Ferðakompanísins, flaug við fyrsta tækifæri til Akureyrar eftir að umferðaslysið varð til að liðsinna farþegunum eftir bestu getu, ásamt öðru starfsfólki fyrirtækisins. Í yfirlýsingunni þakkar hann björgunarfólki fyrir skjót og fagmannleg viðbrögð við erfiðar aðstæður.

Þá segir að búið sé að hafa samband við aðstandendur farþeganna í Frakklandi vegna slyssins, kanna allan lagalegan rétt farþeganna og upplýsa þá um stöðu þeirra gagnvart tryggingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×