Lífið

Einar er í góðum höndum

Árni Þórarinsson er ákaflega ánægður með Hjálmar Hjálmarsson í hlutverki Einars blaðamanns en tökur á Tíma nornarinnar standa núna yfir.Fréttablaðið/Vilhelm
Árni Þórarinsson er ákaflega ánægður með Hjálmar Hjálmarsson í hlutverki Einars blaðamanns en tökur á Tíma nornarinnar standa núna yfir.Fréttablaðið/Vilhelm

Rithöfundurinn Árni Þórarinsson rambaði inn á tökustað Tíma nornarinnar í fyrradag en sjónvarpsþáttaröð Friðriks Þórs Friðrikssonar er einmitt byggð á samnefndri bók höfundarins um Einar blaðamann. Árni segir það hafa verið erfitt að skrifa handritið sjálfur.

Tökur á Tíma nornarinnar standa yfir um þessar mundir en samnefnd bók, sem kom út fyrir fimm árum, hefur áður verið sett upp sem útvarpsleikrit og flutt á Rás 1. Árni Þórarinsson, höfundur bókarinnar og handritshöfundur þáttanna, segir alltaf fróðlegt að koma á tökustað. Hann dáist að þeirri þolinmæði sem kvikmyndagerðarmenn búi yfir. „Og mér leist bara vel á það litla sem ég sá."

Höfundurinn er einnig ánægður með Hjálmar Hjálmarsson í hlutverki Einars blaðamanns, telur leikarann líkjast Einari eins og mögulegt er. „Hann hefur forvitið yfirbragð og nær alveg húmornum." Árni skrifaði sjálfur handritið og fékk góðar ábendingar hjá bæði Hjálmari og leikstjóranum Friðriki Þór. Hann viðurkennir að það hafi ekki verið auðvelt verk, kaflar sem honum hafi þótt vænt um voru látnir víkja, öðru bætt inn í og atburðarásinni breytt til að laga bókina að sjónvarpsforminu. „Sumt var sársaukafullt, annað skemmtilegt og skapandi, það var forvitnilegt að gera eitthvað nýtt úr þessu gamla efni."

Sjöunda bók Árna um Einar blaðamann, Morgunengill, kom nýverið út og hefur fengið lofsamlega dóma. Spennuþrungið íslenskt samfélag leikur lykilhlutverk í bókinni og Árni segir það hafa verið meðvitað.

„Spennufléttan tekur óvenjusterk mið af samtímanum, samfélagið er eiginlega dregið út úr aukahlutveri sínu og sett í aðalhlutverk."

Íslenskir krimmaaðdáendur eru ekki þeir einu sem hafa tekið bókum Árna opnum örmum því Frakkar eru einstaklega hrifnir af honum. Árni vill ekki meina að það sé vegna útlitsins þótt það minni eilítið á franskt ljóðskáld.

„Auðvitað er merkilegt að sjá samtímis á metsölulistum glæpasagna í Frakklandi kannski tvo eða þrjá íslenska höfunda. Arnaldur er auðvitað fastagestur og svo slæðist ég þarna inn, Jón Hallur og Stefán Máni," segir Árni sem hefur ekki farið varhluta af Stieg Larsson-markaðsvæðingunni. „Ég, rétt eins og aðrir íslenskir glæpasagnahöfundar, við höfum örugglega allir lesið þær vangaveltur hvort við værum næsti Stieg Larsson."

Árni kann enga eina skýringu á því af hverju norrænar glæpasögur njóti svona mikillar hylli. „Ég hef tekið þátt í málþingum um norrænar glæpasögur og vinsældir þeirra og menn hafa ekki getað komið sér saman um neinn einn hlut. Að mínu mati, fyrir utan framandi sögusvið, leikur það stórt hlutverk að þrátt fyrir að Norðurlöndin skilgreini sig öll sem velferðarþjóðfélag þá eru þau einnig gróðrarstía fyrir glæpi og spillingu."

freyrgigja@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.