Innlent

Skattkerfið dragi úr tekjutengingu bóta

Unnið er að breytingum á skattkerfinu og gert er ráð fyrir að þær liggi fyrir um áramót. Skattar verða tekjutengdir en dregið verður úr tekjutengingum bóta.
fréttablaðið/arnþór
Unnið er að breytingum á skattkerfinu og gert er ráð fyrir að þær liggi fyrir um áramót. Skattar verða tekjutengdir en dregið verður úr tekjutengingum bóta. fréttablaðið/arnþór
Tillögur að nýju skattkerfi verða lagðar fram um áramót, ef allt gengur eftir. Um síðustu áramót var kerfinu breytt og tekið upp þrepaskipt kerfi. Þær breytingar voru kynntar til eins árs á meðan heildarendurskoðun færi fram. Sú vinna stendur yfir.

Fjármálaráðherra skipaði nefnd til að endurskoða kerfið. Þar eru ýmsar hugmyndir uppi á borðum: þrepaskipting skatta og uppstokkun bótakerfis.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, segir góða samvinnu milli stjórnarflokkanna um málið og það sé á forræði fjármálaráðherra. Ráðuneyti hans á fulltrúa í nefndinni. Árni Páll segir að það hversu mörg skattþrepin verði þurfi að skoðast í samhengi við skerðinguna bótamegin. Ekki gangi að tekjutengja bæði skatta og bætur.

Árni Páll segir það í samræmi við kerfið á Norðurlöndunum, þar sé tekjutengingin skattamegin, en ekki bóta. Horfa verði til þess að tekjutenging sé ein tegund skattlagningar.

„Þá er grunnvinna í gangi varðandi nýtt barnatryggingakerfi sem tæki við af barnabótakerfi. Það ætti að mæta betur hag barnmargra lágtekju­fjölskyldna og hvetja fólk til atvinnuþátttöku og auðvelda þannig leið út úr atvinnuleysi,“ segir Árni Páll.

Þá er til skoðunar að koma á fót nýju húsnæðisbótakerfi, sem leysti af vaxtabætur og húsaleigubætur. Þá yrði komið á fót einu húsnæðisbótakerfi óháð því hvort menn kaupa eða leigja.

„Það lá alltaf fyrir að um næstu áramót yrði lagt fram nýtt kerfi sem yrði endurskoðað í heild sinni og við stefnum að því. Við viljum kerfi sem styður enn frekar en nú við þær fjölskyldur sem eiga á hættu að lenda í fátæktargildrum og mæti betur framfærsluþörf vegna barna og húsnæðis.“- kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×