Fótbolti

Stuðningsmenn Heerenveen vilja alls ekki missa Arnór Smárason

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Smárason.
Arnór Smárason. Mynd/Getty Images
Framtíð Arnórs Smárasonar hefur verið mikið í umræðunni á hollensku netmiðlunum um helgina en Heerenveen ætlar ekki að gera nýjan samning við íslenska landsliðsmanninn sem hefur verið að glíma við meiðsli síðustu níu mánuði.

Arnór Smárason var í viðtali við Leeuwarden Courant þar sem hann segir frá áhuga annarra liða. Þar á meðal eru lið frá Hollandi auk liða frá Þýskalandi, Englandi, Belgíu og Noregi.

„Allur þessi áhugi kemur mér á óvart því ég er búinn að vera frá í níu mánuði vegna meiðsla. Ég ánægður með að hafa þessa möguleika en ég er þó ekki tilbúinn strax," segir Arnór en hann segist hafa sterkar taugar til Heerenveen eftir að hafa spilað þar í sex ár.Arnór talar líka um að hann hafi verið að vonast eftir nýjum samningi.

„Hann er mjög góður leikmaður," sagði Jan Everse, þjálfari Arnórs hjá

Heerenveen. „Félagið gerir þetta með þungu hjarta en það þurfti einhvers staðar að skera niður. Það eru margir miðjumenn hjá félaginu og Arnór var meðlausan samning. Hann þarf samt ekki að hafa áhyggjur af því að finna nýtt lið og hann getur fengið góð meðmæli frá mér," sagði Everse.

Það er mikill hiti í stuðningsmönnum Heerenveen sem fara hamförum á spjallsíðunum hollensku miðlanna og skora þar á klúbbinn að breyta ákvörðun sinni. Á einni þeirra er búið að koma af stað skoðanakönnun þar sem 86% þátttakenda vilja að hann verði áfram hjá Heerenveen, enda er hann í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×