Lífið

Maður verður seint ríkur á dauðarokkinu

Rokkararnir í Beneath hafa gert útgáfu- og dreifingarsamning við fyrirtækið Unique Leader Records.
Rokkararnir í Beneath hafa gert útgáfu- og dreifingarsamning við fyrirtækið Unique Leader Records.
Liðsmenn dauðarokks­sveitar­innar Beneath hafa samið við bandarískt plötufyrirtæki um útgáfu og dreifingu á tónlist sinni á heimsvísu.

„Við erum allir mjög sáttir. Þetta er það sem við erum búnir að vera að stefna að,“ segir Gísli Sigmundsson úr dauðarokkssveitinni Beneath.

Sveitin hefur skrifað undir samning við Unique Leader Records um útgáfu og dreifingu á plötum sveitarinnar á heimsvísu. Plötufyrirtækið, sem er með höfuð­stöðvar í Kaliforníu, sérhæfir sig í dauðarokki og hentar Beneath því mjög vel. „Það eru ansi mörg bönd þarna sem eru helvíti hörð, þannig að við teljum okkur vera í góðum félagsskap,“ segir Gísli. Spurður út í samninginn segir hann: „Þetta er ágætur samningur en ég held að maður verði seint ríkur á dauða­rokkinu. Þetta hangir á því hvað við náum að túra mikið og fylgja þessu eftir. Eins og staðan er í dag eru bönd að fá stóran hluta af innkomu sinni með því að túra og selja boli.“

Fyrsta stóra plata Beneath er væntanleg á næstu mánuðum. Hún var tekin upp í Sundlauginni og Stúdíó Fosslandi og hljóðblönduð af Daniel Bergstrand í Dug Out Studios í Uppsölum í Svíþjóð. Bergstrand hefur á síðustu árum skipað sér sess sem einn af færustu upptökustjórunum í harðara rokki. Hann hefur unnið með In Flames, Behemoth og Meshuggah svo fáeinar þekktar dauðarokkssveitir séu nefndar.

Beneath gaf út fjögurra laga þröngskífuna Hollow Empty Void í febrúar á þessu ári í gegnum fyrirtækið Mordbrann Musikk. Skífunni hefur verið tekið vel hérlendis sem erlendis. Vorið 2009 vann Beneath fyrstu Wacken Metal Battle keppnina á Íslandi og spilaði í kjölfarið á Wacken Open Air hátíðinni í Þýskalandi. freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.