Lífið

Geimverur til Hollywood

Geimverur og náin tengsl við annars heims verur hafa alltaf verið Hollywood hugleikin. Það hefur síður en svo dregið úr þeim áhuga því á útgáfuáætlun stóru framleiðslufyrirtækjanna eru hátt í fimmtán myndir um geimverur af öllum stærðum og gerðum.

Um helgina verður frumsýnd kvikmyndin Skyline sem fjallar um innrás geimvera á jörðina. Eins og svona kvikmynda er siður úir og grúir allt af tæknibrellum og mannkynið reynir að lifa af í vonlausri baráttu við ógnarstór geimför og hrikalegan tortímingarmátt þeirra. Skyline, miðað við dómana sem hún hefur fengið í erlendu pressunni, ryður ekki brautina í geimverukvikmyndum en imdb.com gefur henni aðeins fimm af tíu mögulegum.

Vefsíðan Cinemasoldier.com veltir upp þeirri spurningu af hverju geimverur og innrás þeirra séu svona ofarlega í huga Hollywood. Og kemst að þeirri einföldu niðurstöðu að allir vilja græða á góðu gengi kvikmynda á borð við Avatar, Cloverfield og síðast en ekki síst District 9. Greinar­höfundurinn bendir hins vegar á þá staðreynd að þessar þrjár myndir buðu upp á eitthvað nýtt, Avatar í tækni en hinar tvær með söguþræði sínum og nálgun. Og þetta er auðvitað lang þægilegasta og einfaldasta útskýringin; Hollywood hugsi bara um peninga og hvernig megi græða. Og nú séu það geimverurnar.

Á þessu getur hins vegar verið önnur hlið. Eftir seinna stríð hófu bandarísk stjórnvöld miskunnar­lausan áróður um hættuna af kommúnismanum og sá áróður skilaði sér rakleiðis út í kvikmyndir, kommarnir urðu geimverur sem vildu eyða hinu frjálsa samfélagi Vesturlanda og þessi ótti lifði lengi og var framlengdur með kjarnorkuvánni og taugaveikluninni við slíka styrjöld. Alltaf voru geimverurnar notaðar til að sýna fram á hið ókunna og skelfilega sem þó Bandaríkjamönnum tókst að sigra með kænsku sinni – og vopnum.

Bandaríkin hafa sennilega aldrei verið jafn hrædd þjóð og um þessar mundir. Múslimi má varla leysa vind án þess að allar hryðjuverkavarnir séu ræstar enda rekur heimsveldið umdeildan stríðsrekstur í Afganistan og Írak og styður við bakið á stjórnvöldum í Ísrael. Og því er engin furða að bandarískir kvikmyndagerðarmenn skuli mótast af þessum hugsunarhætti; þessari eilífu hræðslu við hryðjuverk í stærstu borgum og hugsanlegri útrýmingu bandarískra gilda. Það var engin tilviljun að Independence Day skyldi slá í gegn 1996; á friðartímunum sem þá höfðu ríkt var engin ástæða til að óttast hið ókunna og fólk hafði ekki séð sæmilegan geimverutrylli í dágóðan tíma, meira að segja óvinir Bandaríkjanna tóku þá þátt í að smita geimveruskipin af kvefi Jeffs Goldblum.

Allt stefnir í að 2010 og 2011, jafnvel 2012 verði geimveruár. Og kvikmyndahúsin muni fyllast af alls kyns hetjum sem berjast gegn yfirráðum þeirra og tortímingarmætti þeirra. Nema í kvikmyndinni Paul; þar sýna bresku grínistarnir Simon Pegg og Nick Frost fram á að það er hægt að vingast við þessa verur og jafnvel hafa nokkuð gaman af þeim.

freyrgigja@frettabladid.is

Hér fyrir ofan má sjá stiklu úr Skyline en á Vísir Sjónvarp er hægt að sjá fleiri skemmtilegar bíóstiklur undir flokknum Bíó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.