„Manni brá svolítið en ég var ekkert hrædd," segir Svanhvít Geirsdóttir, ábúandi á Sævarlandi í Þistilfirði, en hún tilkynnti til lögreglunnar um Ísbjörn sem nú hefur verið felldur. Í ljós kom að um birnu var að ræða en hún var ekki horuð og í góðu ásigkomulagi.
Svanhvíti brá heldur betur þegar hún sá birnuna í um hundrað metra fjarlægð frá bænum. Lögreglan kom stuttu síðar á vettvang en þá hafði birnan gengið meðfram girðingu fram að Svalbarðsárbrú en þar mætti lögreglan birnunni. Hún fældist þá og hljóp í ofboði til baka í átt að bænum að sögn Svanhvítar.
Aðspurð hvort hún hafi séð birnuna vel segist Svanhvít að hún hafi gert það.
„Það var ekki mikil fjarlægð á milli okkar þegar hún hljóp til baka," segir Svanhvít sem giskar á að um tíu metrar hafi verið á milli hennar og birnunnar þegar fjarlægðin var minnst.
„Ég hljóp þá strax inn," segir Svanhvít sem þótti þetta allt frekar spennandi enda ekki á hverjum degi sem maður sér ísbjörn á landi.
Þrjár skyttur komu á vettvang auk lögreglunnar en birnan hljóp þá undan þeim niður gil og týndu þeir henni stuttu síðar. Að sögn Svanhvítar hljóp birnan austur en tvær skyttur til viðbótar komu úr þeirri átt til þess að fella birnuna en virðast hafa farið á mis við hana.
Það kom Svanhvíti á óvart að birnan hafi verið felld hjá eyðibýli á óslandi, „hún hefur þá farið mjög hratt yfir," segir Svanhvít.
Ekki er ljóst hvaða skytta það var sem felldi birnuna en hún var felld um leið og Umhverfisstofnun tók ákvörðun um að það væri það besta í stöðunni.