Flugfélag Íslands mun fljúga milli Íslands og Noregs um næstu jól og áramót með Fokker vélum. Flogið verður frá Reykjavíkurflugvelli til Stavanger, Bergen og Þrándheims, samkvæmt upplýsingum frá Flugfélaginu. Hingað til hefur Icelandair séð um flug til Noregs og hefur þá verið flogið í Boeing þotum. Iceland Express hefur líka verið með þotuflug til Noregs.
Flugtíminn á Fokkernum til Bergen er áætlaður 3 klukkustundir og 15 mínútur en 3 klukkustundir og 25 mínútur til Stavanger og Þrándheims. Verð farmiða aðra leiðina verður á bilinu 28-45 þúsund krónur, að sögn Inga Þórs Guðmundssonar, forstöðumanns sölu- og markaðssviðs Flugfélagsins. Markhópinn segir hann fyrst og fremst Íslendinga búsetta í Noregi og fjölskyldur þeirra.
Ferðir Flugfélags Íslands verða sem hér segir:
Flogið verður til Stavanger 20. og 28. desember og 4. janúar.
Flogið verður til Þrándheims 21. og 27. desember og 3. janúar
Flogið verður til Bergen 21. og 27. desember og 3. janúar
Salan er þegar hafin á heimsíðu Flugfélags Íslands.