Enski boltinn

Macheda kemur aftur inn í lið United innan tveggja vikna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson fagnar Federico Macheda eftir að strákurinn tryggði United sigur á Aston Villa í fyrra.
Sir Alex Ferguson fagnar Federico Macheda eftir að strákurinn tryggði United sigur á Aston Villa í fyrra. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að Ítalinn Federico Macheda sé að verða leikfær á ný eftir langvinn og leiðinleg kálfameiðsli. Macheda hefur aðeins spilað fimm leiki á þessu tímabili.

Federico Macheda sló í gegn á Old Trafford í fyrra þegar hann tryggði liðinu dramatískan sigur á Aston Villa og fylgdi því síðan eftir með því að skora annað sigurmark á móti Sunderland. Þessir tveir sigurleikir áttu mikinn þátt í því að tryggja United enska meistaratitilinn á síðasta tímabili.

Michael Owen meiddist á dögunum og verður ekki meira með á tímabilinu auk þess að Danny Welbeck verður í láni hjá Preston út tímabilið. Wayne Rooney, Dimitar Berbatov og nýliðinn Mame Biram Diouf eru því einu hreinræktuðu framherjar liðsins eins og staðan er í dag.

„Macheda byrjaði að æfa í þessari viku. Hann hefur verið lengi meiddur og  það hafa verið mikil vonbrigði fyrir okkur því hann er mjög hæfileikaríkur leikmaður. Hann ætti að vera farin að spila fyrir okkur innan tveggja vikna," sagði Alex Ferguson en Macheda lék síðast með United í desember.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×