Samninganefnd Íslands í Icesave málinu fundar með Bretum í Lundúnum í dag. Stjórnarandstaðan kom í veg fyrir það í gær að nefndin legði fram nýtt tilboð í málinu.
Samninganefnd Íslands fundað tvisvar með Bretum í gær. Indriði Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að til stæði að funda aftur í dag.
Íslenska samningannefndin hugðist leggja fram nýtt tilboð í málinu en stjórnarandstaðan kom í veg fyrir það á fundi forystumanna stjórnmálaflokkanna í gær.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur lýst því yfir að einhverskonar samkomulag verði að liggja fyrir í dag annars verði ekki hjá þjóðaratkvæðagreiðslu komist.
Fréttablaðið fullyrðir í dag að ríkisstjórnin muni leggja fram frumvarp um að Icesave lögin verði dregin til baka náist nýtt samkomulag í London.
Verði þjóðaratkvæðagreiðslunni aflýst gæti það hins vegar sett þverpólitíska sátt um icesave málið í uppnám þar sem stjórnarandstaðan hefur þrýst á að hún fari fram á tilsettum tíma. Það er í samræmi við ráðleggingar Lee Buchheit aðalsamningamanns Íslands í deilunni.