Innlent

Gagnrýndi mætingu þingmanna á nefndarfundi

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi mætingu þingmanna á nefndarfundi í umræðum á Alþingi í dag. Vegna slæmrar mætingar er minnihlutinn stundum með meirihluta í nefndum, að sögn Sigríðar. Hún vill að hægt verði að fylgjast með því opinberlega hverjir mæti á nefndarfundi og hverjir ekki.

Sigríður sagði þingmenn njóta afskaplega lítils trausts hjá þjóðinni. „Við stöndum í mjög erfiðum málum og erum með mörg þung mál í nefndum, en það er mjög athyglisvert að á fjölda nefndarfunda vantar þó nokkurn fjölda þingmanna. Við sitjum fáliðuð yfir stórum og alvarlegum málum og það vantar mannskap í nefndirnar,“ sagði Sigríður.

Því næst beindi hún því til forsætisnefndar að skoðað yrði hvort ekki væri ástæða til að breyta nefndarskipan. „Ég trúi því ekki að þingmenn geri það að gamni sínu að mæta ekki á nefndarfundi. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem mæta ekki á fundina séu á öðrum nefndarfundum á þeim tíma, en einhvern veginn er skipulaginu svo háttað á þinginu að við vinnum allt of fáliðuð í mjög mikilvægum málum,“ sagði Sigríður og bætti því við þetta væru ólýðræðisleg og óvönduð vinnubrögð.

„Ég velti því líka eiginlega upp við forsætisnefnd hvort ástæða sé til þess að opinberlega væri hægt að sjá hverjir mæta á fundi og fjalla um málin þannig að það komi ekki bara fram á nefndarálitum. Ég ætla ekki að fara að vera með svipu á þingmenn en þetta er okkur mörgum þingmönnum, ekki síst þeim sem eru nýir en ég held að þetta eigi ekki síður við um þau sem hafa verið hér lengur, mikil getgáta að hér séu nefndarfundir með fimm þingmönnum kannski í stað níu,“ sagði Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×