Enski boltinn

Tevez: Neville var með dónaskap

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Carlos Tevez, leikmaður Man. City, hefur varið það hvernig hann fagnaði mörkum sínum í leik City og Man. Utd í deildarbikarnum.

Tevez hafði lýst því yfir að hann myndi ekki fagna ef honum tækist að skora í leiknum. Hann stóð ekki við þau loforð og þess utan lenti hann í uppákomu með Gary Neville þar sem Tevez gaf til kynna að Neville ætti að læra að halda kjafti.

Neville svaraði með því að sýna Tevez puttann. Á mannamáli kallast það að gefa fokkmerki.

„Gary var með dónaskap í minn garð sem er ekki vanalegt hjá honum. Hann vissi samt ekki alla söguna af hverju ég fór frá Man. Utd og ég tel mig eiga það skilið að hann sýni mér virðingu," sagði Tevez en Neville sagði fyrir leikinn að það hefði verið rétt hjá United að sleppa því að borga morðfé fyrir Tevez.

„Knattspyrna er leikhús og það var ekkert illt í þessum töktum mínum. Ég var ekki að reyna að æsa neinn upp en hafði samt rétt á því að segja Neville að honum bæri að sýna meiri virðingu."

„Í seinna markinu stillti ég mér upp fyrir framan stjórnarmenn United og Ferguson því ég vildi að þeir vissu að þessi mörk væru mitt svar við því að ég væri ekki peninganna virði."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×