Innlent

Ölvun á bæjarhátíðum en ólæti lítil

SB skrifar
Gleði og gaman úti á landi.
Gleði og gaman úti á landi.
Þrír voru teknir fyrir ölvunarakstur á hátíðinni Á góðri stundu á Grundarfirði þar sem yfir 2000 manns voru samankomnir. Að sögn lögreglu fór hátíðin vel fram og skein sólin blítt hátíðargesti á laugardaginn.

Þegar rætt er við lögregluna víðsvegar um landið þar sem bæjarhátíðir fóru fram er nánast sama sagan allsstaðar. Ölvun var mikil en ólæti lítil.

Á Borgarfirði Eystri mættu um 2500 manns á tónlistarhátíðina Bræðsluna og segir lögregla að þrátt fyrir að íbúatala bæjarins hafi nánast tuttugufaldast hafi engar kærur eða tilkynningar komið á borð lögreglunnar. Í nótt hafi þó þurft að aðstoða suma til að finna tjöldin sín - þó nóttin sé enn björt getur bakkus byrgt fólki sýn.

Á Mærudögum í Húsavík mættu um 6000 manns og bar mikið á ölvun, að sögn lögreglunnar. Enginn var þó tekinn fyrir ölvunarakstur og segir lögreglan að hátíðin hafi gengið vel fyrir sig.

Í dag má svo búast við miklum umferðarþunga þegar borgarbúar flykkjast til síns heima. Lögreglan vill hvetja fólk til að blása og athuga vínandamagn í blóði áður en lagt er af stað heim á leið og verður boðið upp á þá þjónustu á öllum bæjarhátíðunum úti á landi.

Í Reykjavík var engin bæjarhátíð, ekki opinberlega að minnsta kosti. en engu að síður bar mikið á ölvun í miðbænum. Tvær líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu, báðar á hverfisgötunni eftir klukkan fjögur í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×