Lífið

Kaninn skildi ekki myndina Good Heart

Danskir blaðamenn hafa ausið lofi yfir nýjustu mynd Dags Kára, The Good Heart. Berlinske Tidende segir hana eina af myndum ársins. Bandarískir kollegar þeirra voru á öndverðum meiði.

„Þrátt fyrir allt held ég að það sé einhver skandinavískur eða norður-evrópskur tónn í myndinni og ég held að þeir [Bandaríkjamenn] hafi tekið hlutum bókstaflega sem átti ekki að taka bókstaflega," segir leikstjórinn Dagur Kári Pétursson, spurður út í hin misjöfnu viðbrögð við The Good Heart.

Myndin hefur fengið frábæra dóma í Danmörku að undanförnu en hún var frumsýnd þarlendis á þriðjudaginn. Áður hafði myndin hlotið slæma dóma í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að sögusviðið sé New York og bandarískar stjörnur séu í aðalhlutverki. Dagur telur að Bandaríkjamenn hafi misskilið myndina og þess vegna hafi hún ekki fallið í kramið þar. „Hún hitti ekki alveg á þeirra bylgjulengd, virðist vera."

Danir ausa aftur á móti lofi yfir hugarsmíð Dags Kára, sem er sérstaklega ánægjulegt fyrir leikstjórann því þar stundaði hann sitt kvikmyndanám og hefur verið með annan fótinn þar undanfarin ár. Dagblaðið Berlinske Tidende gefur myndinni fullt hús stiga og segir hana eina af þeim bestu á árinu og Politiken gefur henni fimm stjörnur. Kvikmyndamiðillinn Filmland á DR gefur myndinni sömuleiðis fimm í einkunn, af sex mögulegum. „Ég er rosalega ánægður. Þetta er eiginlega einróma lof yfir alla línuna. Þetta er breiður skali af blaðamönnum þannig að þetta er virkilega ánægjulegt," segir Dagur Kári og viðurkennir að þessi góðu viðbrögð hafi komið sér á óvart. „Í öðrum löndum hafa blaðamenn stundum skipst í tvær fylkingar, annað hvort gefið mjög góða dóma eða mjög slæma. Þarna er almenn ánægja."

Þjóðverjar hafa einnig hrifist af myndinni og svo virðist því sem lokasprettur The Good Heart á þessu ári ætli að verða sérlega kröftugur.

Sýnishornið úr myndinni má sjá hér að ofan.

freyr@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.