Enski boltinn

Guðjón: Eins og dagur og nótt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson, stjóri Crewe.
Guðjón Þórðarson, stjóri Crewe. Nordic Photos / Getty Images
Guðjón Þórðarson segir að það sé gríðarmikill munur á liði Crewe í dag og þegar hann kom til félagsins um áramótin síðustu.

Hann var í dag útnefndur besti knattspyrnustjóri febrúarmánaðar í ensku C-deildinni en undir stjórn Guðjóns vann Crewe fjóra af fimm leikjum sínum.

„Þetta er eins og dagur og nótt," sagði Guðjón spurður um muninn á liði sínu nú og þegar hann kom fyrst til þess. „En það er samt mikil vinna eftir. Ég missti til að mynda tvo mikilvæga leikmenn í meiðsli - bæði miðvörð og framherja - og get ekki sett menn í þeirra stöður eru jafngóðir. Þó svo að ég sé með stóran hóp má ég ekki við því að missa mína sterkustu menn."

Guðjón hefur náð að stýra Crewe af fallsvæði deildarinnar en liðið er þó langt frá því hólpið.

„Við ætlum að halda okkur uppi en ég verð að vera raunsær - það er mikil vinna eftir. Það eiga eftir að koma leikir með slæmum úrslitum," sagði Guðjón.

Hann fékk fyrir skömmu Gylfa Þór Sigurðsson að láni frá Reading og hefur hann þegar komið við sögu í tveimur leikjum hjá sér.

„Hann spilaði hálfan leik á móti Brighton og svo allan síðasta leik þar sem hann var með skárri mönnum," sagði Guðjón og átti þar við leikinn gegn Carlisle á þriðjudagskvöldið. Crewe tapaði honum.

„En þetta er strákur sem hefur fullt af hæfileikum. Hann þarf bara að gefa sér tíma til að þroskast."

Lánssamningur Gylfa gildir í einn mánuð en Guðjón segir að það sé möguleiki á því að hann verði hjá félaginu til loka leiktíðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×