Enski boltinn

Owen veit að hann var ekki fyrsti kostur Ferguson

Elvar Geir Magnússon skrifar
Michael Owen í búningi Newcastle.
Michael Owen í búningi Newcastle.

Margir stuðningsmenn Manchester United eru ekki ánægðir með að félagið hafi ekki keypt neina stórstjörnu til að fylla skarð Cristiano Ronaldo. Knattspyrnustjórinn Sir Alex Ferguson biður menn þó um að sýna skilning.

„Við ætluðum að reyna að kaupa Karim Benzema en verðmiðinn var mun hærri en verðmæti hans er. Ef eitthvað félag vill spenna bogann það hátt þá er það bara þeirra mál. Við erum ekki að fara að eyða bara til að eyða," segir Ferguson. Hann segir að Manchester City og Real Madrid hafi breytt öllum markaðnum með þeim stjarnfræðilegu upphæðum sem félögin hafa varið í leikmannakaup.

„Við erum skynsamir. Við höfum mjög góðan leikmannahóp og nokkra mjög efnilega leikmenn. Við þurfum ekkert að örvænta þó við missum einn leikmann," sagði Ferguson.

Hann viðurkennir það fúslega að Owen var ekki hans fyrsti kostur þegar kom að því að styrkja liðið. „Michael veit það sjálfur. Ég ætlaði að fá Benzema og svo biðum við eftir ákvörðun frá Carlos Tevez. Um leið og það var ljóst að Benzema væri ekki á leiðinni þá snérum við okkur að Michael," sagði Ferguson.

„Fólk má ekki gleyma því að við höfum fjóra aðra sóknarmenn líka. Dimitar Berbatov, Wayne Rooney, Federico Macheda og Danny Welbeck eru allir hérna. Ég veit að tveir af þeim eru mjög ungir en ungir leikmenn með hæfileika munu alltaf fá tækifæri hér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×