Enski boltinn

Michael Owen með sigurmarkið í fyrsta leiknum með United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen byrjaði feril sinn hjá Manchester United
Michael Owen byrjaði feril sinn hjá Manchester United Mynd/AFP

Michael Owen byrjaði feril sinn hjá Manchester United því hann skoraði sigurmark liðsins í sínum fyrsta leik. Manchester United vann þá úrvalslið frá Malasíu 3-2 í æfingaleik í Kuala Lumpur.

Michael Owen kom inn á sem varamaður fyrir Wayne Rooney á 60. mínútu þegar staðan var 2-2. Hann skoraði sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok eftir að hafa fengið boltann utarlega í teignum, leikið á markvörðinn og lagt boltann í markið. Wayne Rooney og Nani höfðu komið Manchester United í 2-0 en úrvalsliðið náði að jafna leikinn.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sagðist fyrir leikinn ætla að byrja með sitt sterkasta lið en Owen var eins og áður sagði ekki meðal þeirra ellefu. Rooney og Dimitar Berbatov voru í framlínunni og þeir Darron Gibson og Nani voru á köntunum.

Paul Scholes og Anderson voru á miðjunni og í vörninni voru þeir Rio Ferdinand, Patrice Evra, Johnny Evans og John O'Shea en í markinu var síðan Edwin Van Der Sar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×