Erlent

Íranar stálu friðarverðlaunum Nóbels

Óli Tynes skrifar
Shirin Ebadi.
Shirin Ebadi.

Stjórnvöld í Íran hafa lagt hald á friðarverðlaun Nóbels sem íranski lögfræðingurinn Shirin Ebadi hlaut árið 2003.

Jafnframt hafa þau fryst verðlaunaféð sem Ebadi fékk en það lagði hún í sjóð til þess að styrkja samviskufanga og fjölskyldur þeirra.

Heiðursmerkið sjálft og skjalið sem því fylgdi var geymt í bankahólfi í Teheran. Þangað sóttu lögreglumenn góssið samkvæmt skipun Byltingardómstólsins svokallaða.

Lögreglumennirnir hirtu einnig með sér heiðursorðu Frönsku Akademíunnar og hring sem Blaðamannafélag Þýskalands hafði gefið Ebadi.

Shirin Ebadi fór á ráðstefnu á Spáni daginn áður en forsetakosningar voru haldnar í Íran. Hún hefur ekki snúið aftur síðan Mahmoud Ahmadinejad var lýstur sigurvegari. Hún segir að sér hafi borist margskonar hótanir frá stjórnvöldum.

Það eru Norðmenn sem veita friðarverðlaun Nóbels. Jónas Gahr Störe, utanríkisráðherra sagði að viðbrögð þeirra væri furða og vantrú.

Prótokolmeistari íranska sendiráðsins var boðaður í utanríkisráðuneytið til þess að taka við mótmælum norskra stjórnvalda.

Geir Lundestad ritari norsku Nóbelsnefndarinnar sagði að svona framkoma ætti sér ekkert fordæmi og þetta væri gersamlega óásættanlegt.

 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.