Fótbolti

Donovan: Beckham leggur sig ekki fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham í búningi LA Galaxy.
David Beckham í búningi LA Galaxy. Nordic Photos / AFP

Landon Donovan, fyrirliði bandaríska landsliðsins og liðsfélagi David Beckham hjá LA Galaxy, hefur gefið út bók þar sem hann gagnrýnir Beckham nokkuð harkalega.

Hann segir að Beckham hafi sýnt því lítinn sem engan áhuga að spila með Galaxy undanfarið. Hann dregur það í efa að Beckham sé rétti maðurinn til að vera leiðtogi liðsins.

„Okkur finnst lágmark að hann sé áhugasamur og viljugur til að spila með okkur," sagði hann í bókinni sem heitir The Beckham Experiment. „En tíminn hefur leitt í ljós hið gagnstæða, bæði innan vallar sem utan."

Donovan sagði einnig að það væri eðlilegt að gera meiri kröfur til Beckham þar sem hann sé langlaunahæsti leikmaður deildarinnar. „Það er lágmarkskrafa að hann mæti í hvern leik, hvort sem hann er í banni eða ekki, og leggi sig allan fram."

„Það getur vel verið að hann sé enginn leiðtogi en hann ætti allavega að leggja sig allan fram á hverjum einasta degi. Það er ekki tilfellið. Mér finnst að við séum ekki að fara fram á mikið."

Donovan sagði enn fremur að í fyrstu hafi Beckham lagt sig mikið fram en að allt það hafi breyst þegar að Ruud Gullit var rekinn sem knattspyrnustjóri Galaxy. Þá hafi hann skyndilega hætt að leggja sig fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×