Fótbolti

Brasilíumenn hafa gaman af vandræðum Argentínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er ólíkt gengið hjá Brasilíu og Argentínu þessa dagana.
Það er ólíkt gengið hjá Brasilíu og Argentínu þessa dagana. Mynd/AFP

Brasilíumenn hafa næstum því jafngaman af vandræðum argentínska landsliðsins eins og þeir hafa af velgengi síns landsliðs. Brasilíska landsliðið hefur unnið ellefu leiki í röð og tryggt sig inn á HM á meðan Argentína er langt frá því að vera öruggt með sæti á HM eftir að hafa tapað 3 leikjum í röð og fjórum leikjum af síðustu fimm.

Brasilíska íþróttablaðið Lance valdi eftir leikina fyrirsögnina „Fullkomin hamingja" og rökstuddi það með undirfyrirsögninni: „Brasilía var búin að tryggja sig inn á HM en skemmti sér yfir sigri á Chile og enn einu tapinu hjá Argentínu."

Fólkið á götunni hefur líka gaman af þróun mála. „Svona á þetta alltaf að vera, Brasilía á toppnum og Argentína í vandræðum. Svona viljum við hafa þetta hér," sagði Manuel Mauricio 51 árs blómasölumaður.

Brasilíumenn hafa unnið alla landsleiki sína frá því að þeir gerðu 1-1 jafntefli við Ekvador í mars og eru nú fjórum leikjum frá því að jafna met Spánverja. Þeir hafa einnig ekki tapað í 19 leikjum eða síðan að þeir lágu 2-0 fyrir Paragvæ í júní 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×