Enski boltinn

Leikmaður Sheff. Utd líklega dæmdur í tveggja ára bann

Ómar Þorgeirsson skrifar
Paddy Kenny í leik með Sheffield United.
Paddy Kenny í leik með Sheffield United. Nordic photos/AFP

Paddy Kenny, markvörður Sheffield United, á yfir höfði sér langt keppnisbann eftir að þvagsýni úr leikmanninum, sem tekið var eftir leik gegn Preston úrslitakeppni um laust sæti í efstu deild í maí, innihélt ólöglegt magn af lyfinu epedrine.

Sheffield United hefur þegar sett leikmanninn í bann en búist er við því að lyfjaeftirlit enska knattspyrnusambandsins dæmi hann í tveggja ára keppnisbann.

Lyfið ephedrine hefur áður verið í umræðunni en árið 2007 voru fjórir atvinnumenn í Rugby dæmdir í tveggja ára bann hver fyrir að þvagsýni þeirra innihéldu of mikið magn af lyfinu.

Frægasta dæmið er þó þegar knattspyrnugoðsögnin Diego Maradona var rekinn heim af HM 1994 í Bandaríkjunum eftir að þvagsýni úr kappanum innihélt of mikið magn af lyfinu.

Ephedrine er til að mynda að finna í sumum orkudrykkjum og í ævisögu Maradona útskýrir hann að sjúkraþjálfari Argentínu hafi gefið honum orkudrykkinn Rip Fuel stuttu áður en hann var gripinn glóðvolgur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×