Erlent

Niðurstaðan áfall fyrir ákæruvaldið

Mynd náðist af þeim að morgni 7. júlí 2005 áður en þeir sprengdu sig í loft upp. Sakborningarnir þrír reyndust ekki vitorðsmenn þeirra.
fréttablaðið/AP
Mynd náðist af þeim að morgni 7. júlí 2005 áður en þeir sprengdu sig í loft upp. Sakborningarnir þrír reyndust ekki vitorðsmenn þeirra. fréttablaðið/AP

Þrír menn, sem grunaðir voru um aðild að sprengjuárásunum í London 7. júlí 2005, voru í gær sýknaðir af ákærum.

Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að þeir Waheed Ali, Sadeer Saleem og Mohammed Shakil, sem taldir voru hafa aðstoðað árásarmennina, hafi ekkert haft með málið að gera.

Þessi niðurstaða þykir áfall fyrir ákæruvaldið í Bretlandi. Litlar vonir þykja nú til þess að nokkurn tímann komist upp um vitorðsmenn árásarmannanna, hafi þeir nokkrir verið.

Árásarmennirnir voru fjórir, með jafnmargar sprengjur sem sprungu í neðanjarðarlestum eða strætisvögnum á fjórum stöðum í London. Árásirnar kostuðu 52 manns lífið, en fjöldi manns særðist að auki.

Jacqui Putnam, einn þeirra sem særðust, sagðist vonsvikinn vegna þess hve illa hefur gengið að draga nokkurn til ábyrgðar vegna árásanna.

„Það hefur verið sársaukafullt að fylgjast með réttarhöldunum, og það er jafn sársaukafullt að vera hér, nærri fjórum árum eftir árásirnar 7. júlí, þegar svo mörgum spurningum er enn ósvarað,“ sagði hann í yfirlýsingu.

Í síðustu viku voru látnir lausir í Bretlandi tólf menn, sem handteknir voru fyrr í mánuðinum vegna gruns um hryðjuverkastarfsemi. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×