Enski boltinn

Verstu leikmannakaup Ferguson

Elvar Geir Magnússon skrifar
Juan Sebastian Veron.
Juan Sebastian Veron.

Fáir knattspyrnustjórar eru snjallari á leikmannamarkaðnum en Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. En frá því að hann tók við stjórnartaumunum hjá Rauðu djöflunum hefur hann misstigið sig og fengið leikmenn sem engan veginn hafa staðið undir væntingum.

Blaðamenn The Sun hafa tekið saman tíu verstu leikmannakaupin hjá Ferguson og má sjá þau hér að neðan.

1. Juan Sebastian Veron

Argentínumaðurinn trjónir á toppi listans en Ferguson keypti hann fyrir 28 milljónir punda. Átti tvö vandræðaleg tímabil með United áður en hann fór til Chelsea á 15 milljónir punda.

2. Diego Forlan

Úrúgvæskur sóknarmaður sem margir gerðu grín að á sínum tíma. Var fenginn til að skora mörk hjá United en gekk bölvanlega upp við mark andstæðingana. Eftir að hann yfirgaf Old Trafford hefur hann hinsvegar blómstrað.

3. Massimo Taibi

Ítalskur markvörður sem spilaði aðeins fjóra leiki fyrir United áður en honum var sparkað. Fékk á sig ferlegt mark gegn Southampton þar sem hann missti knöttinn undir sig. Stóð einnig í markinu í 5-0 tapi fyrir Chelsea.

4. Kleberson

Brasilískur miðjumaður sem varð heimsmeistari 2002. Hann var keyptur til United á sex milljónir punda en náði ekki að vinna sér inn sæti í liðinu.

5. Manucho

Ferguson tók fimm milljón punda áhættu sem ekki borgaði sig þegar hann fékk þennan sóknarmann frá Angóla. Fór á kostum í Afríkukeppninni í fyrra en Svarta sveðjan var lánuð til Hull á síðasta tímabili og sýndi lítið. Er nú kominn til Real Valladolid á Spáni.

6. Eric Djemba-Djemba

Það var talað um Djemba-Djemba sem hugsanlegan arftaka Roy Keane. Hann var ekki nálægt því að standast þær væntingar. Átti síðan misheppnaðar dvalir hjá Aston Villa og Burnley.

7. Liam Miller

Annar leikmaður sem talað var um sem hugsanlegan arftaka Roy Keane. Írskur miðjumaður sem höndlaði alls ekki pressuna.

8. Owen Hargreaves

Kostaði 18 milljónir punda og hefur séð til þess að sjúkraþjálfarar United hafa nóg að gera enda nánast verið á meiðslalistanum síðan hann kom.

9. William Prunier

Þeir fáu sem muna eftir þessum franska varnarmanni vilja gleyma honum. Kom til United 1995 og var sorglega slakur.

10. David Bellion

Franskur sóknarmaður sem skoraði aðeins fjögur mörk á tveimur árum á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×