Enski boltinn

Guðjón losar sig við leikmann vegna agabrots

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe.
Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe. Nordic Photos / Getty Images

Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe Alexandra, hefur tilkynnt Norður-Íranum Michael O'Connor að honum sé frjálst að fara frá félaginu.

O'Connor þessi er 21 árs gamall og á fjölda leikja að baki með yngri landsliðum Norður-Írlands auk þess sem hann hefur leikið tvívegis með A-landsliðinu.

Samkvæmt frétt í dagblaðinu The Sentinel í Stoke mun O'Connor hafa verið sendur heim eftir atvik sem kom upp í ferðalagi liðsins til Brighton um síðustu leiki en Crewe vann þann leik, 4-0.

Hann kom svo ekkert við sögu í leik Crewe gegn Carlisle í gær og staðfesti Guðjón að honum væri frjálst að finna sér annað félag.

„Ég er búinn að ræða við drenginn og honum er frjálst að fara til annars félags á lánssamningi ef hann getur fundið sér eitthvað," sagði Guðjón.

O'Connor gekk til liðs við Crewe sem unglingur árið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×