Innlent

Fær upplýsingar um hugsanlegu svínaflensutilfellin á morgun

Haraldur Briem, sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem, sóttvarnalæknir. Mynd/GVA
Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, fær á morgun upplýsingar um tvö hugsanleg svínaflensutilfelli Íslendinga sem eru nýkomnir frá Bandaríkjunum og sagt var frá fyrr í dag.

Haraldur segir að ekki sé grunur um að mennirnir séu með svínaflensu og því sé þeim ekki haldið í einangrun. Engu að síður hafi sér þótt ástæða til að málið yrði kannað nánar.

„Ef ég hefði verið nokkuð viss um að þetta væri ekki neitt hefði ég ekki séð ástæðu til þess að benda þeim á að leita til læknis," segir Haraldur.

Haraldur bendir á nú sé tími árstíðarbundna inflúensa sem gangi í samfélaginu þannig að fleiri tilfelli muni greinast á næstunni en það þurfi alls ekki að vera umrædd svínainflúensa.

Tilfellin í Bandaríkjunum eru væg og þau valda ekki miklum áhyggjum, að mati Haralds. „Það er þetta sem er að gerast í Mexíkó sem veldur okkur áhyggjum en við vitum heldur ekki nóg hvað er að gerast þar."

Landlæknisembættið hefur ráðlagt þeim sem eru á leið til Mexíkó að hætta við ferð sína. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ráðleggur fólki að ferðast ekki til landsins.


Tengdar fréttir

Ekki hægt að bólusetja fólk gegn svínaflensu

Ekki er hægt að bólusetja sig til að koma í veg fyrir að fá svínaflensu. Þegar er þó byrjað að þróa bóluefni en það getur tekið vikur og jafnvel mánuði. Íslendingar hafa tryggt sér ákveðinn forgagn að því lyfi þegar það verður til.

Tveir Íslendingar rannsakaðir vegna gruns um svínaflensu

Tveir Íslendingar hafa verið rannsakaðir vegna gruns um að þeir hafi smitast af svínaflensu. Einstaklingarnir eru báðir nýkomnir frá Bandaríkjunum. Þetta kom fram á blaðamannafundi með Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra sem nú stendur yfir. Tekið var fram að ekki þykir líklegt að mennirnir séu smitaðir af svínaflensunni og er þeim ekki haldið í einangrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×