Enski boltinn

United náði aftur sjö stiga forskoti

Wayne Rooney skoraði fallegt mark fyrir Manchester United í kvöld
Wayne Rooney skoraði fallegt mark fyrir Manchester United í kvöld AFP

Mikið var um að vera í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Manchester United náði aftur sjö stiga forskoti á toppi deildarinnar með 2-1 sigri á Newcastle á útivelli.

Leikurinn á St. James´ Park byrjaði mjög fjörlega og það var Peter Lövenkrands sem kom heimamönnum yfir strax á níundu mínútu þegar hann nýtti sér sjaldgæf mistök frá Edwin van der Sar í marki United. 

Hollendingurinn náði ekki að halda langskoti frá Jonas Gutierrez og eftirleikurinn var Lövenkrands auðveldur.

Meistararnir voru þó ekki af baki dottnir og á 20. mínútu jafnaði Wayne Rooney metin með glæsilegu marki.

United náði betri tökum á leiknum eftir því sem á leið og það var Búlgarinn Dimitar Berbatov sem tryggði liðinu sigurinn með marki á 56. mínútu.

United hefur sem fyrr segir sjö stiga forskot á Chelsea og Liverpool í deildinni og á leik til góða þegar tíu umferðir eru eftir.

Manchester City vann góðan 2-0 sigur á Aston Villa á heimavelli sínum með mörkum frá Elano og Shaun Wright-Phillips og setti þar með stórt strik í Meistaradeildarvonir Villa-manna. Aston Villa er enn í fjórða sæti deildarinnar en er nú aðeins þremur stigum á undan Arsenal sem er í fimmta sætinu. Villa hafði unnið sjö útileiki í röð fyrir leik kvöldsins.

Carlton Cole var bæði hetjan og skúrkurinn í liði West Ham í kvöld þegar hann tryggði Hömrunum 1-0 útisigur á Wigan. Cole skoraði laglegt mark í fyrri hálfleik og var skömmu síðar rekinn af velli með sitt annað gula spjald. Annan leikinn í röð missti West Ham mann meiddan af velli. Jack Collison var borinn sárþjáður af velli eftir að hafa meiðst á hné.

Stoke vann annan sigur sinn í síðustu fjórtán leikjum þegar liðið skellti Bolton 2-0 á heimavelli sínum. James Beattie skoraði sitt fimmta mark í sjö leikjum fyrir Stoke og kom liðinu yfir á 14. mínútu. Það var svo Ricardo Fuller sem innsiglaði sigurinn á 73. mínútu. Grétar Rafn Steinsson var á sínum stað í byrjunarliði Bolton en var skipt af velli á 81. mínútu.

Tottenham jafnaði sig eftir bikarvonbrigðin um helgina þegar liðið fékk Middlesbrough í heimsókn og vann 4-0 sigur. Robbie Keane skoraði sitt fyrsta mark fyrir Spurs frá því hann kom aftur til félagsins og félagi hans í framlínunni Roman Pavlyuchenko eitt. Aaron Lennon skoraði tvívegis.

Hull City vann þýðingarmikinn og dramatískan sigur á Fulham á útivelli 1-0 þar sem Manchester United-maðurinn Manucho skoraði sigurmarkið í blálokin.

Blackburn Rovers og Everton skildu jöfn á Ewood Park þar sem Blackburn krækti í mikilvægt stig í botnbaráttunni.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×