Fótbolti

Forráðamenn skoska landsliðsins ósáttir með ummæli Fergusons

Ómar Þorgeirsson skrifar
Barry Ferguson.
Barry Ferguson. Nordic photos/AFP

Barry Fergson hefur nú loksins tjáð sig opinberlega um brottrekstur sinn úr skoska landsliðinu fyrir fjórum mánuðum síðan en hann var þá gripinn glóðvolgur við bjórdrykkju eftir tap gegn Hollandi í 9. riðli undankeppni HM 2010 þar sem Ísland leikur einnig.

Ferguson þótti svo sýna litla sem enga iðrum í framhaldinu og gaf til að mynda móðgandi merki í sjónvarpsmyndavélar meðan á næsta leik liðsins í undanriðlinum stóð og fékk í kjölfarið lífstíðarbann hjá skoska knattspyrnusambandinu.

Ferguson segir í nýlegu viðtali við skoska fjölmiðla að skoska knattspyrnusambandið sé hlægilegt og kunni ekki að taka á neinum málum.

„Ég var búinn að spila 45 landsleiki og vera fyrirliði liðsins svo árum skiptir og eina sem ég fékk var fax þar sem stóð að ég væri kominn í bann fyrir lífstíð með skoska landsliðinu. Þetta er ekkert nema hlægilegt. Það talaði enginn við mig, hvorki landsliðsþjálfarinn né neinn hjá knattspyrnusambandinu," segir Ferguson.

Gordon Smith stjórnarformaður skoska knattspyrnusambandsins kveðst ekki ætla að láta draga sig í orðastríð við Ferguson allra síst á þessum tíma þegar stutt er í einn mikilvægasta leik skoska landsliðsins í langan tíma.

„Ég vill ekki heyra neitt annað en um leikinn gegn Norðmönnum sem er gríðarlega mikilvægur. Ég veit hins vegar fyrir víst að það er engin tilviljun að Ferguson vilji koma fram núna á þessum tímapunkti. Hann vill bara koma með neikvæðni inn í undirbúning liðsins og það leyfum við ekki," segir Smith.

Skotar eru sem stendur í öðru sæti í 9. riðli með 7 stig eftir 5 leiki og þurfa nauðsynlega á sigri að halda til þess að slíta sig frá Makedónum sem eru í þriðja sæti riðilsins með 7 stig eftir 6 leiki. Leikurinn fer fram í Ósló á miðvikudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×