Enski boltinn

Reynir Ferguson aftur við Benzema?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Karim Benzema.
Karim Benzema.

Sir Alex Ferguson náði ekki að landa Karim Benzema síðasta sumar og var leikmaðurinn keyptur til Real Madrid frá Lyon. Í nokkrum af sunnudagsblöðum Englands er reiknað með að Ferguson sé þó ekki búinn að gefast upp á að fá Benzema til Manchester United.

Þrátt fyrir allan þann pening sem United fékk fyrir Cristiano Ronaldo var Ferguson ekki tilbúinn að greiða 35 milljónir punda fyrir Benzema síðasta sumar.

Leikmaðurinn hefur ekki staðið fyllilega undir væntingum hjá Real Madrid innan vallar og þá er vaxandi óánægja með hve duglegur leikmaðurinn hefur verið að stunda skemmtanalífið í Madríd.

Manchester United er samkvæmt Sunday Express að skoða þann möguleika hvort Real Madrid sé tilbúið að selja sér leikmanninn á afsláttarverði eða jafnvel lána hann til sín í janúar.

Þá má geta þess að News of the World greinir frá því að Ferguson sé að íhuga að veðja á Hatem Ben Arfa, vængmann Marseille, í janúarglugganum. Talið er að Ben Arfa sé fáanlegur á um 5 milljónir punda. Þessi 22 ára leikmaður er talinn hafa mikla hæfileika þó hann hafi ekki náð að sýna sínar bestu hliðar það sem af er tímabili í Frakklandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×