Enski boltinn

City sagt nálægt því að ganga frá kaupum á Toure

Ómar Þorgeirsson skrifar
Kolo Toure.
Kolo Toure. Nordic photos/AFP

Samkvæmt breskum fjölmiðlum í dag eru forráðamenn Manchester City nú loks nálægt því að landa varnarmanni eftir að hafa gefist upp á John Terry hjá Chelsea og Joleon Lescott hjá Everton.

Talið er að félagið hafi lagt fram 15 milljón punda kauptilboð í Kolo Toure hjá Arsenal og að Lundúnafélagið sé líklegt til þess að taka því og aðeins eigi því eftir að ná samkomulagi við leikmanninn sjálfan.

Toure hefur leikið 326 leiki fyrir Arsenal og á enn tvö ár eftir af samningi sínum við félagið en ku hafa lagt fram beiðni um að vera settur á sölulista í janúar.

Beiðninni var þá hafnað af forráðamönnum Arsenal en þeir eru nú taldir viljugri til þess að ganga frá málunum og nokkur bresku dagblaðanna telja líklegt að Norðmaðurinn Brede Hangeland hjá Fulham verði fenginn til þess að fylla skarð Toure.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×