Fótbolti

Engin náði Margréti Láru - varð markahæst á EM 2009

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára ræðir málin við Sigurð Ragnar landsliðsþjálfara.
Margrét Lára ræðir málin við Sigurð Ragnar landsliðsþjálfara. Mynd/ÓskarÓ

Margrét Lára Viðarsdóttir varð markahæsti leikmaður Evrópukeppni kvenna 2009 þrátt fyrir að hafa ekki náð að skora í sjálfri úrslitakeppninni. Margrét Lára skoraði tólf mörk í undankeppninni og enginn leikmannanna í úrslitakeppninni í Finnlandi náði þeim markafjölda.

Svíinn Victoria Svensson komst reyndar næst Margréti Láru en hún skoraði sitt ellefta mark þegar Svíar duttu út úr átta liða úrslitunum fyrir Noregi. Rússinn Natalia Mokshanova sem skoraði 11 mörk í undankeppninni náði ekki að komast á blað í Finnlandi.

Inka Grings varð langmarkahæst í úrslitakeppninni með sex mörk en hún lék ekki með Þýskalandi í undankeppninni. Grings, sem skoraði sigurmarkið á móti Íslandi, skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum og varð þar með fyrsta konan til þess að skora sex mörk í úrslitakeppni Evrópumóts kvenna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×