Lífið

Good Heart seld til 22 landa

Seld víða Paul Dano og Brian Cox fara með aðalhlutverkin í kvikmyndinni The Good Heart.
Seld víða Paul Dano og Brian Cox fara með aðalhlutverkin í kvikmyndinni The Good Heart.

„Þetta er viðurkenning um að myndin sé góð,“ segir Skúli Malmqvist hjá framleiðslufyrirtækinu Zik Zak. Dreifingarrétturinn á nýjustu kvikmynd Dags Kára Péturssonar, The Good Heart, hefur verið seldur til 22 landa. Á meðal þeirra eru Bandaríkin, Frakkland, Þýskaland, Japan, Kanada, Argentína og öll Norðurlöndin.

Myndin var frumsýnd á Toronto-hátíðinni í Kanada 11. september og í framhaldinu hófst sala á dreifingarréttinum víða um heim. „Það hefur verið mikill samdráttur í sölu á dreifingarrétti kvikmynda síðastliðin tvö ár. Því miður eru tölurnar töluvert lægri en fyrir tveimur árum,“ segir Skúli, sem er engu að síður ánægður með þá samninga sem náðst hafa.

Um þessar mundir stendur yfir sölumarkaðurinn American Film Market, sem er sá stærsti í Bandaríkjunum og þá munu líklega fleiri þjóðir bætast við þær 22 sem þegar eru komnar um borð. Skúli vonast eftir því að ein þeirra sem bætist við verði Bretland.

Með aðalhlutverkin í The Good Heart fara Brian Cox og Paul Dano sem hafa báðir getið sér gott orð í Hollywood. Enn á eftir að taka myndina til almennra sýninga en Frakkar verða líklega fyrstir til þess í byrjun næsta árs.

Frumsýning í Bandaríkjunum er síðan fyrirhuguð næsta vor. Viðræður standa nú yfir um frumsýningardag myndarinnar hér á landi. Mögulega verður hann á þessu ári en líklegast er þó að hann verði á nýju ári. - fb
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.