Enski boltinn

Tevez hefur ekki verið boðinn samningur

AFP

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóra Manchester United og Kia Joorabchian hjá MSI ber ekki saman um stöðu mála hjá argentínska framherjanum Carlos Tevez.

Tevez reyndist United drjúgur á ný í gær þegar hann kom inn sem varamaður og skoraði jöfnunarmark liðsins í 2-1 sigri á Wigan í úrvalsdeildinni. United er nú aðeins stigi frá því að tryggja sér titilinn.

Tevez er að ljúka við tveggja ára lánssamning hjá United frá fyrirtækinu MSI og Sir Alex Ferguson hefur sagt að nýr samningur sé í smíðum fyrir hann.

"Hann er frábær leikmaður. Hann veit að við viljum halda honum. David Gill (framkvæmdastjóri United) er búinn að funda um hann og ég er viss um að það gengur vel. Við viljum halda honum," sagði Ferguson.

Kia Joorabchian, fulltrúi Tevez, vísar þessu hinsvegar á bug og segir að Tevez hafi ekki verið boðinn samningur hjá United.

"Tevez hefur ekki verið boðinn neinn samningur. Ég er búinn að funda með David Gill en það snerist ekki um Tevez. Þegar félagið gekk frá lánssamningnum fyrir tveimur árum var samið um ákveðið kaupverð að honum loknum og það var líka háð því að leikmaðurinn fengi langtímasamning," sagði Joorabchian.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×