Innlent

Fréttaskýring: Hver lætur eftirlýstan mann flytja inn 200 kg af fíkniefnum?

Breki Logason skrifar
Þorsteinn Kragh við aðalmeðferð
Þorsteinn Kragh við aðalmeðferð MYND/GVA

Ákæruvaldið fer fram á 10 ára fangelsisdóm hið minnsta yfir Þorsteini Kragh og Jacobi Van Hinte fyrir að skipuleggja og flytja inn tæplega 200 kíló af kannabisefnum og tæpt 1 ½ kíló af kókaíni. Verjandi Þorsteins fer fram á að hann verði sýknaður en verjandi hollendingsins telur hæfilega refsingu vera 6-7 ár hið mesta. Hann segir ennfremur að 10 ára fangelsisdómur yfir rúmlega sjötugum manni sé í raun lífstíðardómur. Vísir fylgdist með aðalmeðferð í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Eftirlýstur af Interpol

Jacob Van Hinte er hollenskur ríkisborgari fæddur árið 1938. Hann hefur meðal annars búið á Ibiza á Spáni en er nú með lögheimili í húsbíl sem hann kom á hingað til lands 10.júní 2008. Hann segist vera ellilífeyrisþegi sem reyndar hafi haft tekjur af því að selja afríska skrautmuni. Ástæða þess að Jacob var stöðvaður við komuna hingað til lands var sú að nafn hans skar sig úr á farþegalista ferjunnar. Lögregla hafði farið yfir listann og séð að Jacob var eftirlýstur af Interpol fyrir smygl á 800 kg af kannabisefnum til Spánar árið 2005. Fyrir það hlaut Jacob tæplega fjögurra ára fangelsisdóm en sat einungis í fangelsi í 9 mánuði.

Þrátt fyrir mikla leit í húsbíl Jacobs fundust engin fíkniefni. Hundar á vegum lögreglu létu þó ófriðlega og á endanum vísaði Jacob sjálfur lögreglu á efnin. Þau voru falin í sérútbúnum hólfum undir innréttingu sem var í lofti bifreiðarinnar. Einnig var þar að finna átta áfengisflöskur.

Jacob játaði fyrir dómi að hafa flutt inn umrædd fíkniefni en segist ekki hafa vitað af kókaíninu og hann sé í raun mjóg á móti sterkum fíkniefnum. Ákæruvaldið telur þó framburð hans afar ótrúverðugan og hefur hann margítrekað breytt honum. Fyrst segir Jacob að menn sem heiti Jim og Bill hafi skipulagt smyglið. Síðan breytir hann frásögn sinni og dregur Þorstein Kragh inn í málið.

Segir hann þá hafa margoft hist á fundum í Amsterdam þar sem smyglið var skipulagt og Þorsteinn hafi útvegað efnin með því að hafa skilið sendibifreið með efnunum eftir í bílastæðahúsi í Hollandi. Þeir hafi síðan pakkað efnunum en hann hafi ekki farið til Íslands fyrr en 6-8 vikum eftir það, þá tímasetningu hafi Þorsteinn ákveðið. Hann sagðist einnig hafa farið aðra ferð fyrir Þorstein á árinu 2007. Þessu lýsti Jacob nokkkuð ítarlega hjá lögreglu.



Þorsteinn gengur undir dulnefninu Kimmi hjá Jacobi og meðal annars lýsti hann Þorsteini sem manni sem væri 170cm á hæð, dökkhærður með hárið greitt aftur, fínn náungi og rólegur í fasi. Einnig benti hann á mynd af Þorsteini hjá lögreglu og sagði þetta vera Kimma. Fyrir smyglið átti Jacob að fá 40 þúsund evrur.

Jacob Van Hinte við aðalmeðferð ásamt túlki sínumGVA

Ekkert finnst um Terracotta

Jacob losnar síðan úr gæsluvarðhaldi þann 28.ágúst og Þorsteinn þann 3.september. Eftir þann tíma hefur Jacob samband við lögmann sinn og síðar lögreglu og segist vilja breyta framburði sínum. Þá dregur hann áðurnefnda Jim og Bill aftur inn og segir þá hafa skipulagt smyglið. Þeir séu hættulegir menn sem hann óttist og hann hafi ekki viljað bendla þá við málið í upphafi heldur gefa góða sögu með því að draga Þorstein inn í málið. Við þá sögu hélt Jacob sig við við aðalmeðferð málsins.

Ástæðu þess að Jacob dregur Þorstein inn í málið segir hann hafa verið þá að Þorsteinn sé sá eini sem hann hafi þekkt hér á landi. Í fyrstu sagðist Þorsteinn ekkert þekkja Jacob en mikið púður fór í að tengja þá saman. Síðar viðurkennir Þorsteinn að hafa hitt Jacob þegar hann átti að taka á móti 25 húsbílum sem áttu að koma hingað til lands árið 2007. Ekkert finnst um Terracotta.

Þorsteinn segir að ferðaskrifstofa að nafni Terracotta hafi haft samband við sig og beðið hann um að taka á móti fólkinu sem ætlaði að dvelja hjá honum í 7-10 daga og nota gufubað sem hann rak á Laugarvatni. Þegar hann hafi síðan mætt á hafnarbakkann á Seyðifirði hefði Jacob verið sá eini sem hefði komið. Þeir hafi síðan farið áleiðis til Reykjavíkur og stoppað á Djúpavogi og snætt saman hádegisverð.

Jacob hafi verið mikill áhugamaður um stjörnuspeki og Þorsteinn hafi ætlað að láta útbúa fyrir hann stjörnukort. Þorsteinn segist ekki hafa viljað hafa frekari afskipti af Jacobi fyrr en restin af hópnum væri komin. Það hafi hinsvegar ekki gerst en hann hafi hitt hann einu sinni eftir þetta á kaffiteríunni í World Class Laugum.

Upplýsingar um Terracotta ferðaskrifstofuna haf aldrei fundist þrátt fyrir mikla leit lögreglu en Þorsteinn segir ástæðu þess að hann sjálfur hafi engar upplýsingar vera þá að hann hafi ekki verið nettengdur á þessum tíma og því hafi hann skrifað allt niður sem nú væri glatað. Enginn hefur staðfest að umræddir húsbílarhafi átt að koma hingað til lands. Að bróður Þorsteins undanskildum.

Í máli lögreglumanna fyrir dómi sem sáu um skýrslutökur yfir mönnunum kemur fram að Jacob hefði breyst mikið þegar hann breytti framburði sínum. Hann hafi vart getað horft í augu lögreglumannanna þegar hann dró Þorstein út úr málinu og hefði verið mjög hikandi. Töldu þeir þann framburð mjög ótrúverðugan.

Stóra símamálið

Rannsókn lögreglu beindist að miklu leyti að símanúmerum sem eiga að tengja mennina saman. Í síma Jacobs fannst númer undir nafninu Kimmi sem er frelsisnúmer og var frekar lítið notað. Lögregla lét hinsvegar gera veigamikla rannsókn þar sem sími Þorsteins og umrædds númers voru rakin saman. Í stuttu máli var niðurstaða rannsóknarinnar að nær útilokað er talið að sitthvor aðilinn hafi átt umrædd símanúmer. Á einu ári sem rannsóknin náði yfir voru símarnir nær alltaf á sömu sendum. Þegar Jacob var handtekinn var hætt að nota umrætt númer. Sá sími hefur þó aldrei fundist.

Skýringarnar sem Þorsteinn gaf fyrir rétti voru meðal annars þær að hann væri gjarn á að taka puttalinga upp í bifreið sína en ákæruvaldinu fannst ótrúverðugt að þeir puttalingar myndu allir nota sama símanúmer. Einnig var engin notkun á símanum þegar Þorsteinn fór erlendis.

Í síma Þorsteins og umræddum síma voru einnig svipaðar talhólfskveðjur með álíkum röddum. Einnig var sama PIN númer á símunum, 6969. Einnig var fylgst með Þorsteini eftir að Jacob var handtekinn. Þá fer hann meðal annars til Amsterdam og benti sækjandi á að Þorsteinn hefði notað símaklefa þar, þrátt fyrir að vera með a.m.k þrjá farsíma í notkun.

Símagögnin virðast styðja fyrri frásögn Jacobs þegar þau eru borin saman við þau tímabil sem þeir hittust á fundum í Amsetrdam og annað. Á árinu 2008 var leynisímanúmerið mikið notað.

Við rannsókn lögreglu var einnig lögð rík áhersla á að tengja Þorstein nafninu Rabbit og þar með Jacobi. Í síma Þorsteins var svokallaður Reminder eða áminning þann 17.janúar árið 1938 undir nafninu Rabbit, en það er fæðingardagur Jacobs. Einnig var símanúmer Jacobs í tölvu Þorsteins undir nafninu Rabbit. Sem þykir renna stoðum undir að Jacob hafi gengið undir þessu nafni hjá Þorsteini.

Þorsteinn Kragh leiddur fyrir dómara og dæmdur í gæsluvarðhald.Anton Brink

Peningar í pokum

Rannsókn lögreglu beindist einnig nokkuð að fjármálum Þorsteins. Þau sýna að Þorsteinn hafi haft bolmagn til þess að fjármagn umrædd fíkniefnakaup en hann hafi m.a lánað milljónir án kvittana og keypt sig inn í félög. Einnig hafi hann ekki millifært fé í banka eins og venjan sé og dæmi séu um að hann hafi afhent peninga í pokum.

Þorsteinn hefur játað skattalagabrot fyrir dómi auk þess sem hann hefur sagst hafa falsað miða á tónleika sem hann hefur haldið í gegnum árin. Það gerði hann með því að selja svokallað boðsmiða. Í ljósi þessara játninga hefur fjármálum Þorsteins verið vísað til skattarannsóknarstjóra.

Sáum það á netinu

Einnig kom fram að Jacob hafi hringt í ónefnda konu þegar hann var laus úr gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Það símtal hafi verið hlerað en skilaboðin frá Jacobi hafi verið að segja Anat að hinn gæjinn hafi verið tekinn líka. Sagði konan þá að þær Anat vissu það, þar sem þær hafi séð það á netinu. Bæði Jacob og Þorsteinn hafa sagst þekkja umrædda Anat.

10 ár í raun lífstíðardómur

Í máli sækjandi kom einnig fram að Þorsteinn hafi í mörg ár verið bendlaður við fíkniefnaviðskipti. Ábendingar frá fólki sem hefur ekki viljað láta nafns síns getið hafi borist lögreglu þar sem Þorsteinn var sagður selja fíkniefni. Einnig hlaut hann dóm árið 1985 fyrir að flytja inn 1 kg af hassi ásamt ónafngreindri konu. Hassið hafði konan innanklæða og kom með frá Amsterdam í gegnum Lúxemborg.

Líkt og áður segir er farið fram á 10 ára fangelsisdóm yfir báðum aðilum hið minnsta. Rökstuðningurinn fyrir þeirri refsingu er meðal annars talinn vera hversu einbeittur brotavilji mannanna hafi verið. Þeir hafi skipulagt smyglið í marga mánuði og látið sérútbúa húsbíl til verksins. Einnig er bent á hversu mikið magn sé um að ræða en þetta er stærsti kannabisfundur í sögunni hér á landi.

Verjandi Jacobs telur hæfilega refsingu vera 6-7 ár en vill ekki meina að hann hafi vitað af kókaíninu sem var í bifreiðinni. Það hafi hann sagt strax í upphafi. Einnig snérist málflutningur hans að miklu leyti um að Jacob hefði ekki pakkað efnunum og því ekki vitað hvað var í ógegnsæjum pakkningunum. Einnig vill hann að húsbifreið Jacobs verði ekki gerð upptæk því hún sé í raun lögheimili hans. Hann sagði einnig að 10 ára fangelsisdómur yfir sjötugum manni væri í raun lífstíðardómur.

Helgi Jóhannesson verjandi Þorsteins.GVA

Stjörnulögfræðingur heldur uppi vörnum

Helgi Jóhannesson verjandi Þorsteins Kragh var í miklu stuði þegar kom að því að halda uppi vörnum. Helgi er hvað þekktastur fyrir að hafa varið Kio Alexander Briggs sem sýknaður var af e-töflu innflutningi á tíunda áratug síðustu aldar. Hann hafði engu gleymt.

Í máli sínu byrjaði hann á því að ítreka athugasemdir sínar á rannsókn málsins sem hann sagði að væri í raun meingölluð. Hann benti á að Þorsteinn hefði í 156 skipti fengið rannsóknargögn of seint í hendurnar. Þetta telur Helgi meðal annars að geti sýknað Þorstein. Hann segir þennan dóm gefa fordæmi í þessu máli og sé í raun nokkurskonar öryggisventill.

Hann velti síðan fyrir sér um hvað málið snérist. Hann sagði 20 ára gamlan fangelsisdóm Þorseins ekki koma málinu neitt við og hvað þá hvað Þorsteinn hefði gert á árinu 2007. Það væri í raun ekki til umræðu.

Um fjármál Þorsteins sagði Helgi að fáránlegt væri að halda því fram að hann hafi fjármagnað umrædd fíkniefnakaup vegna þess að hann hefði haft fjárhagslegt bolmagn til þess. Það væru líklega margir staddir í réttarsalnum sem hefðu fjárhagslegt bolmagn til þess. Hann sagði það aldrei hafa verið refsivert að eiga peninga í banka auk þess sem engir peningar hefðu verið millifærðir í tengslum við umræddan fíkniefnainnflutning.

Jólin í „reminder"

Hann sagði að ekki væri hægt að loka mann inn í fangelsi útfrá einhverjum „spekúlasjónum" og benti á að framburður Jacobs hefði verið dreginn tilbaka og því væri ekki hægt að byggja á honum. Einnig væru vangaveltur um þetta símanúmer út í hött. Aldrei hefði verið sannað að Þorsteinn hefði átt umræddan síma, þrátt fyrir 5 húsleitir á heimili hans þar sem ekkert hefði fundist.

Hann sagði rannsókn lögreglu á samanburði huldunúmersins og síma Þorsteins vera gallaða. Tölfræði væri notuð þegar ekki lægi 100% sönnun fyrir, í lögfræði þyrfit hinsvegar 100% sönnun. Um samskonar PIN númer sagði Helgi að fróðlegt væri að gera rannsókn á því hve margir væru með PIN númerið 6969 eða 123 eða 007 „eða eitthvað svipað sem auðvelt er að muna".

Hann benti einnig á að sá sem ætti von á 200 kílóum af hassi hingað til lands myndi ekki setja það í Reminder á símann sinn. Sagði hann það svipað því að minna sig á Jólin.

Einnig benti Helgi á að ef Þorsteinn hefði ætlað að flytja inn umrædd fíkniefni hefði maður sem eftirlýstur er af Interpol líklega verið síðasti maðurinn sem hann hefði fengið til verksins.


Tengdar fréttir

Þorsteinn neitar öllu við yfirheyrslur

Samkvæmt heimildum Vísis neitar Þorsteinn Kragh öllum ásökunum við yfirheyrslu hjá lögreglu. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í síðustu viku eftir að hafa verið handtekinn í tengslum viði innflutningi á um 190 kílóum af hassi sem Hollendingur var tekinn með á Seyðisfirði í byrjun júní.

Frávísunarkröfu Þorsteins Kragh hafnað

Kröfu Þorsteins Kragh um frávísun í máli hans var hafnað af dómara Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Þorsteinn er grunaður um aðild að stórfelldum innflutningi á fíkniefnum en Hollendingurinn Jacob Van Hinte var handtekinn um borð í Norrænu með um 190 kíló af hassi, eitt og hálft kíló af maríjúana og eitt kíló af kókaíni í bíl sínum. Þorsteinn var handtekinn um mánuði síðar og hefur setið í gæsluvarðhaldi í um hálft ár.

Farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald í stóra hassmálinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun nú fyrir hádegi fara fram á það að tónleikahaldarinn Þorsteinn Kragh og Hollendingur, sem grunaðir eru um umfangsmikið fíkniefnasmygl með Norrænu, verði úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald.

Þorsteinn Kragh í áframhaldandi þriggja vikna varðhald

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í morgun á þá kröfu lögreglunnar að tónleikahaldarinn Þorsteinn Kragh, sem grunaður er ásamt Hollendingi um umfangsmikið fíkniefnasmygl með Norrænu, yrði úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald. Það er til þriggja vikna.

Þorsteinn Kragh laus úr haldi

Þorsteinn Kragh, athafnamaðurinn sem setið hefur í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að stóra hassmálinu svokallaða, er laus úr haldi. Hann hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu lögreglu um að framlengja gæsluvarðhaldið. Þorsteinn var hins vegar úrskurðaður í farbann til 9. október. Lögregla hefur áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar.

Aðalmeðferð í máli Þorsteins Kragh í dag

Aðalmeðferð er í dag í máli Þorsteins Kragh og Jakobs Van Hinte í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeir eru sakaðir um að standa að einu stærsta smygli á eiturlyfjum til landsins í sögunni en Van Hinte var stöðvaður í ferjunni Norrænu í júní 2008 með um 190 kíló af hassi, eitt kíló af kókaíni og eitt og hálft kíló af maríjúana, vandlega falið í bíl sínum.

Rannsókn lokið í húsbílahassmálinu

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á umfangsmiklu fíkniefnamáli sem kom upp á Seyðisfirði í júní er lokið og hefur það verið sent embætti ríkissaksóknara til meðferðar.

Útskýrir milljónir með skattsvikum og fölsuðum miðum

Í morgun fór fram aðalmeðferð í máli Þorsteins Kragh og hollendingsins Jacob Van Hinte sem ákærðir eru fyrir fíkniefnainnflutning með Norrænu. Í húsbíl sem Jacob kom á hingað til lands fundust um 200 kg af kannabisefnum auk 1 ½ kg af kókaíni. Hollendingurinn bendlaði Þorstein við málið í upphafi en eftir að þeir hittust á Litla-Hrauni dró hann framburð sinn til baka og segir Þorstein ekkert hafa komið nálægt málinu. Fram kom að tæpar 80 milljónir voru inni á bankareikningum Þorsteins sem hann sagði tilkomnar vegna skota undan skatti og í tengslum við miða sem hann hafi falsað á tónleika sem hann hafi haldið í gegnum tíðina.

Húsleitir gerðar hjá vinum Þorsteins

Húsleitir voru gerðar á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í þarsíðustu viku í tengslum við rannsókn á stórfelldum fíkniefnainnflutningi í húsbíl sem kom til landsins með Norrænu í júní.

Kragh krefst frávísunar

Athafnamaðurinn Þorsteinn Kragh, sem er ákærður fyrir stærsta fíkniefnasmygl Íslandssögunnar, hefur krafist frávísunar á dómsmálinu og sakar lögregluna um að hafa þverbrotið á réttindum sínum.

Hollenski hasssmyglarinn áfram í haldi

Hollendingurinn sem setið hefur í gæsluvarðhaldi undanfarnar þrjár vikur vegna innflutnings á um 190 kílóum af hassi sem fundust í húsbíl hans á Seyðisfirði, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 22.júlí næstkomandi.

Átti að fá 40 þúsund evrur fyrir smyglið

Hollendingurinn Jacob Van Hinte kvaðst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær hafa átt að fá 40.000 evrur fyrir að koma húsbíl, hlöðnum fíkniefnum, hingað til lands. Hann er ákærður, ásamt Þorsteini Kragh, fyrir að hafa ætlað að smygla nær 200 kílóum af kannabisefnum og einu og hálfu kílói af kókaíni til landsins í húsbílnum.

Báðir hinna grunuðu í stóra hassmálinu áfram í varðhaldi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað bæði tónleikahaldarann Þorsteinn Kragh og hollenskan öldung í áframhaldandi þriggja vikna gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn á umfangsmiklu fíkniefnasmygli með Norrænu.

Hollenski smyglarinn áfram í gæsluvarðhaldi

Hollenskur karlmaður á áttræðisaldri var í gær úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna aðildar að fíkniefnasmygli en tollverðir fundu tæp 200 kíló af fíkniefnum um borð í húsbíl hans þegar hann kom til landsins með ferjunni Norrænu 10. júní síðastliðinn.

Kragh fái tíu ára dóm hið minnsta

Ríkissaksóknari fer fram á að Þorsteinn Kragh og Jakob Van Hinte verði dæmdir í tíu ára fangelsi að lágmarki fyrir aðild sína að stórfelldum fíkniefnainnflutningi með Norrænu í sumar. Aðalmeðferð í málinu var fram haldið í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sækjandi byggir kröfu sína um svo þunga dóma á því mikla magni sem mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa reynt að smygla til landsins en alls var um að ræða tæp 200 kíló af fíkniefnum. Í máli sækjanda í morgun kom meðal annars fram að smyglið hafi verið gríðarlega vel skipulagt en til dæmis voru efnin vel falin í sérútbúnum húsbíl.

Þorsteinn Kragh áfram í gæsluvarðhald

Þorsteinn Kragh sem setið hefur í varðhaldi vegna fíkniefnamáls sem kom upp á Seyðisfirði í byrjun júní, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 18. desember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli almannahagsmuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×