Innlent

Kragh krefst frávísunar

Valur Grettisson skrifar
Þorsteinn Kragh telur lögregluna hafa brotið á réttindum sínum.
Þorsteinn Kragh telur lögregluna hafa brotið á réttindum sínum.

Athafnamaðurinn Þorsteinn Kragh, sem er ákærður fyrir stærsta fíkniefnasmygl Íslandssögunnar, hefur krafist frávísunar á dómsmálinu og sakar lögregluna um að hafa þverbrotið á réttindum sínum.

Hann heldur því fram í frávísunarkröfunni að lögreglan hafi látið hann fá rannsóknargögn seint og illa en samkvæmt verjanda Þorsteins, Helga Jóhannessyni, þá á hann rétt á að fá gögnin þremur vikum eftir að þau verða til. Að sögn Helga er um 156 tilvik að ræða þar sem það á að hafa verið brotið á réttindum Þorsteins.

Þorsteinn Kragh var handtekinn í byrjun júlí á síðasta ári vegna gruns um aðild að fíkniefnasmygli með Norrænu. Mánuði áður reyndi hinn tæplega sjötugi Jacob Van Hinte frá Hollandi, að smygla 190 kílóum af hassi til landsins. Að auki fundust eitt og hálft kíló af maríjúana og eitt kíló af kókaíni.

Eftir handtöku Hollendingsins bárust böndin að athafnamanninum Þorsteini sem hingað til hefur verið þekktari sem tónleikahaldari. Hann var handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald þar sem hann hefur setið í hálft ár.

„Þetta er ekki í lagi," segir Helgi, verjandi Þorsteins um það hversu seint og illa það gekk fyrir Þorstein að fá aðgang að gögnunum. Þorsteinn hefur einnig krafist sýknu vegna málsins en hann hefur haldið fram sakleysi sínu frá upphafi.

Málið um frávísun verður flutt á morgun og er búist við niðurstöðu þess þáttar innan fárra daga.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×