Innlent

Kragh fái tíu ára dóm hið minnsta

Þorsteinn Kragh.
Þorsteinn Kragh.

Ríkissaksóknari fer fram á að Þorsteinn Kragh og Jakob Van Hinte verði dæmdir í tíu ára fangelsi að lágmarki fyrir aðild sína að stórfelldum fíkniefnainnflutningi með Norrænu í sumar. Aðalmeðferð í málinu var fram haldið í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sækjandi byggir kröfu sína um svo þunga dóma á því mikla magni sem mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa reynt að smygla til landsins en alls var um að ræða tæp 200 kíló af fíkniefnum. Í máli sækjanda í morgun kom meðal annars fram að smyglið hafi verið gríðarlega vel skipulagt en til dæmis voru efnin vel falin í sérútbúnum húsbíl.

Efnin voru enda svo vel falin að á þau fundust ekki fyrr en Van Hinte hafði vísað á þau. Í máli sækjanda í morgun var Van Hinte einmitt talið það til tekna að hann hafi vísað á efnin auk þess sem hann hafi gefið ítarlegan vitnisburð í upphafi málsins, sem bendlaði Þorstein við málið. Van Hinte dró raunar þann framburð til baka síðar meir en saksóknari segir upprunalega framburðinn þó greinilega vel studdan öðrum gögnum málsins.

Þá kom fram í morgun að Þosteinn hafi áður verið dæmdur fyrir innflutning á fíkniefnum. Árið 1986 var hann sakfelldur fyrir aðild að smygli á einu kílói af hassi frá Hollandi.

Forsaga málsins er að Van Hinte var stöðvaður í ferjunni Norrænu í júní 2008 með um 190 kíló af hassi, eitt kíló af kókaíni og eitt og hálft kíló af maríjúana, vandlega falið í bíl sínum.

Athafnamaðurinn Þorsteinn Kragh var handtekinn um mánuði síðar grunaður um aðild að málinu og hafa þeir setið í gæsluvarðhaldi alla tíð síðan. Verjandi Þorsteins krafðist frávísunar á dögunum á grundvelli þess að umbjóðandi sinn hefði ekki fengið aðgang að málsgögnum eins og hann á rétt á. Dómari féllst ekki á kröfuna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×