Innlent

Átti að fá 40 þúsund evrur fyrir smyglið

Jóhanna Sigþórsdóttir skrifar
Sakborningar huldu andlit sín áður en aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Á myndinni, auk þeirra, má sjá Helga Jóhannesson hrl. verjanda Þorsteins Kragh, Pál Arnór Pálsson hrl. verjanda Jacobs, svo og  dómtúlk lengst til hægri.
Sakborningar huldu andlit sín áður en aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Á myndinni, auk þeirra, má sjá Helga Jóhannesson hrl. verjanda Þorsteins Kragh, Pál Arnór Pálsson hrl. verjanda Jacobs, svo og dómtúlk lengst til hægri. Vísir/GVA
Hollendingurinn Jacob Van Hinte kvaðst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær hafa átt að fá 40.000 evrur fyrir að koma húsbíl, hlöðnum fíkniefnum, hingað til lands. Hann er ákærður, ásamt Þorsteini Kragh, fyrir að hafa ætlað að smygla nær 200 kílóum af kannabisefnum og einu og hálfu kílói af kókaíni til landsins í húsbílnum.

Aðalmeðferð í þessu umfangsmikla fíkniefnamáli hófst í héraðsdómi í gær. Við réttarhöldin í gær kvað Hollendingurinn tvo breska menn, Bill og Jim, hafa staðið á bak við smyglið.

Hann hefði átt að fara með húsbílinn á tjaldstæði, þegar til landsins væri komið, og þar yrði haft samband við hann. Í réttarsalnum kom í ljós að Hollendingurinn var ákaflega „gleyminn“ á símtöl og símanúmer. Hann sagðist hafa verið með marga síma þegar undirbúningur smyglsins stóð sem hæst en myndi ekki númer þeirra. Ekki heldur á rauðum Samsung-síma sem hann var með á sér við handtöku.

Þorsteinn Kragh.
Spurður um hvers vegna hann hefði bent á Þorstein Kragh sem vitorðsmann sagðist hann hafa gert það til að saga sín væri trúverðugri, hann hefði hugsanlega losnað úr einangrun og fengið léttari dóm. Þorsteinn hefur neitað allri sök.

Fram kom að þegar Þorsteinn og Hollendingurinn dvöldu saman á Litla-Hrauni breytti sá síðarnefndi vitnisburði sínum og sagði Þorstein saklausan. Hann hafði þó áður sagt Þorstein ganga undir gælunafninu „Kimmi“ og bent á mynd af Þorsteini sem „Kimma“ hjá lögreglu. Þá harðneitaði Hollendingurinn að hafa vitað af kókaíninu í bílnum.

Honum og Þorsteini bar ekki saman um hvort eða hversu oft þeir hefðu hist í Amsterdam. Hins vegar var Þorsteinn mættur til að taka á móti Hollendingnum á Seyðisfirði. Þorsteinn kvaðst hafa talið sig vera að taka á móti 70 til 80 ellilífeyrisþegum á 25 húsbílum vegna ferðaþjónustustarfa sinna.

Í dómsal kom fram að óskráður frelsissími með tilteknu númeri var talinn hafa verið notaður við skipulagningu fíkniefnasmyglsins. Sá sími og einkasími Þorsteins voru oft staddir á sömu slóðum. Þorsteinn gat ekki skýrt það. Ekki heldur hvers vegna pin-númer beggja símanna var 6969, það sama og hann notaði á Skype-samskiptaforritinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×