Enski boltinn

Sir Alex Ferguson: Varð að nota minnsta miðvörð í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra fagnar einu marka United ásamt félögum sínum.
Patrice Evra fagnar einu marka United ásamt félögum sínum. Mynd/AFP

Sir Alex Ferguson var í góðu skapi eftir 4-0 sigur Manchester United á West Ham á Upton Park í dag. Hann grínaðist með það að hafa þurft að nota minnsta miðvörð í heimi þegar meiðslavandræði varnarmanna liðsins tóku á sig nýja mynd í dag.

Nemanja Vidic gat ekki leikið í dag vegna veikinda og Ferguson setti Gary Neville inn í miðvarðarstöðuna í staðinn fyrir hann. Neville meiddist síðan á nára í fyrri hálfleik og Michael Carrick kom inn fyrir hann.

Þegar Wes Brown meiddist í seinni hálfleik þá varð Ferguson að færa Patrice Evra í miðvörð við hliðina á Carrick og Ryan Giggs niður í vinstri bakvörð. Miðjumaðurinn Darren Fletcher spilaði síðan hægri bakvörð allan leikinn.

„Evra hlýtur að vera minnsti miðvörður í heimi en hann les leikinn vel og er fljótur og áræðinn," sagði Ferguson.

„Ég veit ekki hvernig varnarlínan okkar verður á móti Wolfsburg í Meistaradeildinni en líklega verður Vidic orðinn góður af flensunni og getur því spilað við hliðina á Carrick," sagði Ferguson.

„Meiðsli varnarmanna okkar eru orðin dálítill höfuðverkur en Carrick kom inn og stóð sig mjög vel. Hann hefur yfirvegunina og hraðann. Við lékum vel í seinni hálfeik og nýttum okkur þá reynsluna," sagði Ferguson en fyrsta mark liðsins í leiknum kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×