Enski boltinn

Einstök félög þurfa einstaka stjóra

Nordic Photos/Getty Images

Jose Mourinho þjálfari Inter hefur alltaf sagt að honum þætti gaman að snúa aftur til Englands einn daginn. Hann útilokar ekki að taka við Manchester United í framtíðinni ef tækifæri gæfist.

Breska blaðið News of the World hefur eftir Portúgalanum að hann geti vel hugsað sér að taka við af Sir Alex Ferguson þegar hann hættir.

"Ég á talsvert inni ennþá, það er á hreinu, en ég get ekki sagt hvaða störf koma til greina fyrir mig í framtíðinni. Ég get ekki útilokað að ég muni taka við Manchester United einn daginn. Einstök félög þurfa einstaka knattspyrnuþjálfara," sagði Mourinho, sem kallaði sjálfan sig einmitt "Þann Einstaka" eins og frægt varð þegar hann tók við Chelsea á sínum tíma .

"Enska landsliðið vildi fá mig á sínum tíma og það er stærsta starfið í enska boltanum. Ég er viss um að Manchester United muni leita til bestu stjóra í heimi þegar Ferguson hættir og ég fell sannarlega í þann flokk," sagði Mourinho.

Hann segist þó efast um að Ferguson sé á þeim buxunum að hætta í nánustu framtíð. "Það er ekki hægt að segja til um hvenær hann hættir. Menn vilja ekki hætta þegar þeim gengur vel og þeir hafa áhuga og heilsu til að halda áfram," sagði Mourinho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×