Enski boltinn

Liverpool gengur betur án Torres

AFP

Rafa Benitez knattspyrnustjóri Liverpool hefur sagt að meiðsli framherjans Fernando Torres séu ein helsta ástæða þess að liðinu hefur ekki gengið nógu vel í deildinni í vetur.

"Kannski væri staða okkar í deildinni önnur ef Torres hefði ekki verið meiddur," sagði Benitez í viðtali nýlega.

Spænski framherjinn hefur vissulega verið svipur hjá sjón í vetur vegna meiðsla, ekki síst ef miðað er við form hans á síðustu leiktíð, en hefur Liverpool verið betra lið með Torres innanborðs á þessari leiktíð?

Blaðamenn Daily Mail ákváðu að reyna að svara þessari spurningu og fóru djúpt ofan í kjölinn á leikjum liðsins með og án Torres.

Þar kemur í ljós að Liverpool gengur í raun örlítið betur án spænska framherjans, en munurinn er í raun afar lítill.

Liverpool hefur fengið 31 af 55 stigum sínum í leikjum þar sem Torres hefur spilað en hefur samt náð í 24 stig í þeim 12 leikjum sem Spánverjinn hefur misst af vegna meiðsla.

Torres kom ekki við sögu í tveimur tapleikjum Liverpool, gegn Tottenham og Middlesbrough, en hefur verið í liðinu í sjö af tíu jafnteflisleikjum liðsins. Þar tapar Liverpool fjórtán stigum.

Torres hefur misst af sjö af fimmtán sigrum Liverpool í úrvalsdeildinni og þegar þessar staðreyndir eru hnýttar saman kemur í ljós að árangur Liverpool með og án Torres er mjög svipaður.

Liverpool hefur fengið 2,0667 stig að meðaltali í leik þar sem Torres spilar og 2,0769 stig í leikjum sem hann spilar ekki.

Þessi tölfræði væri eflaust eitthvað öðruvísi ef Torres hefði verið heill í allan vetur, en gefur þó strangt til tekið mynd af því hvernig liðinu hefur vegnað með og án kappans - meiddum eða ómeiddum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×