Innlent

Sjómannaafslátturinn ekki til tals við fjárlagagerðina

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar, segir að afnám sjómannaafsláttar hafi ekki komið til umræðu í fjárlagavinnu fyrir árið 2010.

Þeirri hugmynd hefur verið fleygt oftar en einu sinni að undanförnu að eðlilegt væri að létta útgjöldum, sem námu 1,1 milljarði í fyrra, af ríkissjóði með afnámi eða tilfærslu sjómannaafsláttar. Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður fjárlaganefndar, gerði svo í byrjun september. Stefán Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna, gerir slíkt hið sama.

Stefán segir það með öllu ástæðulaust, og í raun fráleitt, að ríkið sé að niðurgreiða launakostnað útgerðarinnar. Sérstaklega hljóti menn að líta til þessa þegar niðurskurðarhnífurinn er á lofti um allt samfélagið og laun séu lækkuð á almenna markaðnum jafnt sem hjá ríkinu. „Þetta er einfaldlega spurning um skattalagabreytingu. Þetta er svipuð upphæð og verið er að skera niður hjá Fæðingarorlofsjóði og menn eru að eltast við miklu lægri upphæðir en þetta í fjárlagavinnunni."

Stefán telur það einnig koma til greina að tekjutengja sjómannaafsláttinn eins og hverjar aðrar bætur. „Þá myndi greiðsla afsláttarins lækka í hlutfalli við tekjur. Það verður jú að hafa hugfast að tekjur sjómanna eru misjafnlega góðar."

Guðbjartur Hannesson bendir á að sjómannaafslátturinn sé kjarasamningsbundin réttindi og ljóst að útgerðarmenn verði að taka á sig greiðslu sjómannaafsláttar verði hann færður frá ríkinu. „Þetta var upphaflega frágangur kjarasamnings þar sem ríkið lagði til vissa upphæð til að liðka fyrir samningum. Ef menn ætla að taka þetta út verður útgerðin að taka þetta á sig."

Það er kunnara en frá þurfi að segja að útgerðarmenn og sjómenn hafa aftekið með öllu að hróflað verði við sjómannaafslættinum í þeirri mynd sem hann er. Útgerðarmenn eru ekki til viðtals um að taka á sig kostnaðinn og sjómenn hafa sagt fráleitt að stjórnvöld hafi bein afskipti af kjörum einnar stéttar með þessum hætti.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ekki koma til greina að breyta sjómannaafslættinum. Hugmyndin hafi lauslega verið rædd í hans eyru en „aldrei verið sett niður á blað með formlegum hætti".

svavar@frettabladid.is

Vilhjálmur Egilsson
Stefán Aðalsteinsson


á veiðum Sjómannaafsláttur kom til árið 1954. Skattaívilnunin átti að hvetja menn til að fara til sjós. Afslátturinn hefur alltaf verið umdeildur.fréttablaðið/jse



Fleiri fréttir

Sjá meira


×