Enski boltinn

Wenger: Við höfum þroskast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger og David Moyes heilsast fyrir leikinn í dag.
Arsene Wenger og David Moyes heilsast fyrir leikinn í dag. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sagði sína menn hafa tekið út mikinn þroska sem hafi sést vel í 6-1 sigri liðsins á Everton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Margir sparkspekingar í Englandi reiknuðu ekki með því að Arsenal myndi gera tilkall til meistaratitilsins í Englandi enda liðið búið að missa sterka leikmenn eins og Emmanuel Adebayor og Kolo Toure.

Wenger var ánægður með hvernig sínir menn svöruðu gagnrýninni inn á vellinum í dag.

„Úrslit leiksins komu mér á óvart, sérstaklega þar sem við vorum að spila á Goodison Park," sagði Wenger. „En við sýndum samstöðu, liðsanda og mikinn vilja til að spila saman. Allt þetta var ástæðan fyrir því að við unnum í dag."

„Við misstum í sumar tvo frábæra leikmenn til Manchester City en það gerir það að verkum að aðrir leikmenn fá tækifæri til að sanna sig."

„Fólk hefur verið að afskrifa okkur. En það skiptir ekki hvað aðrir segja heldur hvað við gerum. Við höfum þroskast og það er góður grunnur til að byggja á og sýna hvað við viljum gera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×